Vefþjóðviljinn 196. tbl. 17. árg.
Olíuiðnaðurinn býður þessi misserin upp á sérstaka kennslu fyrir þá sem hafa átt bágt með að skilja hvers vegna olían klárast ekki í bráð. Umhverfissinnar hafa lengi haldið því fram að maðurinn sé við það að þurrausa olíulindir – og ýmsar aðrar auðlindir – og því þurfi að grípa til ýmissa stjórnvaldsaðgerða til að draga úr olíunotkun. Fjölmiðlar hafa svo hrellt fólk með fréttum af því að hámark í olíuvinnslu (peak oil) sé handan við hornið, olíuverðið fari þá í 500 dali og neysluóðir Vesturlandabúar á fjórhjóladrifum blikkbeljum fái að kenna á því.
Að undanförnu hefur ný tækni blásið lífi í olíulindir sem áður var talið að væru nær tæmdar. Á BBC í gær var sagt því hvaða áhrif þetta hefur haft í Kaliforníu þar sem svæði sem nýtt hafa verið frá því um 1890 hafa gefið vel af eftir að menn fóru að beita hinni nýju vinnslutækni.
Það er nefnilega þannig að þegar olíuverð hækkar, en því hafa umhverfissinnar jafnan fagnað, opnast nýir möguleikar á hagkvæmri vinnslu, hvort sem er með nýrri og dýrari tækni eða nýjum svæðum.
Af þessum sökum er því nú spáð að Bandaríkin muni innan nokkurra ára framleiða meiri olíu en Sádí-Arabía. Það er með hreinum ólíkindum.