Helgarsprokið 8. september 2013

Vefþjóðviljinn 251. tbl. 17. árg.

Einn hugsuðurinn sem skrifar um bresk þjóðfélagsmál nefnir sig Theodore Dalrymple. Í daglegu lífi heitir hann hins vegar Anthony Daniels og er geðlæknir, sem um árabil starfaði mikið í fangelsum en einnig á sjúkrahúsum. Í bókum sínum ræðir hann meðal annars þær breytingar sem hann í gegnum starf sitt hefur fundið á þjóðfélaginu og viðhorfum og högum skjólstæðinga sinna. Óhætt er að vekja athygli þeirra, sem ekki er sama um hvernig heimurinn þróast, á bókum Dalrymples, en skýr hugsun og framsetning hans er til þess fallin að opna augu og hvetja til sjálfstæðrar hugsunar um alvarleg mál.
Í áhrifamikilli bók, Not with a bang but a whimper, segir Dalrymple á einum stað

While we take material advance for granted as soon as it occurs, we consider remaining social problems as unprecedented and anomalous, and we propose solutions that actually make more difficult further progress of the very kind that we have forgotten ever happened.

Finnst ekki mörgum sjálfsagt að á markað streymi alls kyns tækninýjungar, sem fáir hefðu látið sig dreyma um fyrir örfáum árum? Finnst flestum ekki sjálfsögð krafa, jafnvel mannréttindamál, að atvinna sé næg og kaupmáttur launa þeirra hækki ár frá ári?

En á sama tíma og flestum finnst þetta, þá er eins og þeir telji líka eðlilegt að leggja þyngri og þyngri álögur á atvinnulífið, á fyrirtækin sem eiga að framleiða nýjar og betri vörur, veita mörgum vinnu og greiða laun sem hækka hraðar en verðlagið. Að minnsta kosti er ekki mikið um að hinn almenni maður kvarti opinberlega yfir álögum á fyrirtæki. Skattar og ný og ný gjöld eru lögð á fyrirtæki á hverju ári. Á ótal sviðum verður sífellt erfiðara að hefja rekstur eða halda honum áfram, því sífellt þarf að leita leyfa, skila vottorðum, tala við eftirlitsmenn.

Og það er ekki einungis með sívaxandi gjöldum sem þrengt er að fyrirtækjum. Stjórnlyndir alþingismenn sem ekkert sjá að því að troða eigin gildismati upp á annað fólk, hafa á síðustu árum gengið lengra og lengra. Sífellt eru settar nýjar reglur sem skylda fyrirtæki til að eltast við einhverja löngun stjórnlyndra þingmanna eða ráðherra. Flest af því hefur í för með sér kostnað, hvort sem hann er beinn eða óbeinn. Tími og peningar fara í súginn í gríðarlegum mæli hjá fyrirtækjunum, án þess að mikið virðist heyrast í þeim sem á sama tíma vilja að verðlag standi í stað, laun hækki, þjónusta batni og tækninýjungar komi reglulega.

Telja mætti dæmin lengi. Eitt lítið gæti verið jafnréttisáætlanir. Stjórnlyndir þingmenn settu í lög að hvert einasta fyrirtæki sem hefði fleiri en 25 starfsmenn skyldi gera jafnréttisáætlun. Þessa áætlun er skylt að afhenda starfsmönnum opinberrar stofnunar, Jafnréttisstofu. Það er líka skylt að gefa Jafnréttisstofu „skýrslu um framgang mála“ samkvæmt áætluninni. Svo er skylt að endurskoða áætlunina reglulega.

Einhverjum finnst þetta eflaust smámál. Hver vill ekki „jafnrétti“?
Halda menn að ekkert af þessu kosti neitt? Starfsmennirnir sem setjast niður og gera „jafnréttisáætlun“, þeir gera ekki annað á meðan. Yfirmennirnir sem þurfa að samþykkja hana, gera ekki annað á meðan. Þeir sem þurfa að standa í samskiptum við Jafnréttisstofu, gera ekki annað á meðan. Þeir sem þurfa að semja „skýrslu um framgang mála“ og koma henni til Jafnréttisstofu, þeir gera ekki annað á meðan. Fyrirtæki með 25 starfsmenn þarf ekki að eltast við þetta, en hvert einasta fjölmennra félag á landinu þarf að gera það. Halda menn að það sé hvatning til stjórnenda að ráða 26. starfsmanninn?

Dæmi eins og þessi eru úti um allt. Á hverju ári fara ótrúlega mikil verðmæti forgörðum af því að fyrirtæki og einstaklingar þurfa að sinna einhverjum löngunum stjórnmálamanna til þess að lögleiða draumaveröld sína. Og stjórnmálamenn eru hreint ekki á þeim buxunum að draga úr ákefð sinni. Um mánaðamótin tóku til dæmis gildi lög sem skipa fyrir um hvernig eigendur fyrirtækja velja í stjórnir eigin fyrirtækja. Enginn stjórnmálamaður virðist þora að andmæla lögunum. Og fáir munu þora að leggja til að Jafnréttisstofa verði lögð niður

Fólk ætti að berjast gegn sífellt vaxandi stjórnlyndi og afskiptasemi þingmanna, ráðherra og sveitarstjórnarmanna. Fyrst og fremst auðvitað vegna þess grundvallaratriðis að fólk á að vera sem allra mest frjálst í lífi sínu og mega taka eigin ákvarðanir. En ef það grundvallaratriði nægir ekki eða höfðar ekki til manna, þá ætti fólk að gera það vegna þess að stjórnlyndið rýrir lífskjör.