Þriðjudagur 4. júní 2013

Vefþjóðviljinn 155. tbl. 17. árg.

Stofnendur Microsoft munar sjálfsagt ekki um að greiða háa skatta í dag en hefði gert það í árdaga félagsins.
Stofnendur Microsoft munar sjálfsagt ekki um að greiða háa skatta í dag en hefði gert það í árdaga félagsins.

Hátekjuskattar eru ekki verstir fyrir hátekjufólk. Hátekjumenn ráða yfirleitt við að greiða slíka skatta. 

Það eru tveir aðrir hópar sem hátekjuskattar bitna miklu fremur og helst á.

Annars vegar þeir sem vilja verða hátekjumenn, eru á leiðinni í þann hóp eða dvelja þar skamma stund. Félitla menn sem vilja skapa ný verðmæti og eru að renna stoðum undir ný fyrirtæki munar mjög um að greiða slíka skatta. Hið sama gildir um afreksmenn af ýmsu tagi sem oft eru tekjulausir árum saman við undirbúning afreka sinna og hafa í kjölfarið mjög háar tekjur tímabundið þótt ævitekjurnar séu ekki endilega háar.

Hins vegar er það hópurinn missir af atvinnutækifærum og góðum launum vegna þess að háir skattar stöðva bæði  mennina með nýja framtakið í fyrrnefnda hópnum og draga úr getu hátekjumanna almennt til að fjárfesta í nýjum verkefnum. En sem gefur að skilja eru það helst menn með háar tekjur og eignir sem eru aflögufærir um slíkt.

Þegar rætt er um að láta nú „hátekjuliðið“ greiða meira og meira í skatta er svo rétt að hafa í huga að fæstum eru úthlutuð launakjör út ævina við fæðingu. Menn flakka á milli tekjuhópa eftir því sem lífinu vindur fram. Hátekjuliðið er ekki skipað sama fólkinu ár frá ári.