Vefþjóðviljinn 160. tbl. 16. árg.
Fram eftir degi í gær furðuðu margir sig á því, að Ríkisútvarpið hefði ekki sama áhuga og áður á því að kynna mótmælafund sem haldinn skyldi á Austurvelli. Nú var nefnilega bara mótmælt árásum vinstrimanna á sjávarútveginn í landinu, og það þótti ekki áhugavert í Efstaleiti.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær var aðalmálið að Sjómannasambandið myndi ekki taka þátt í útifundi sem boðaður hefði verið gegn frumvarpi Steingríms J. Sigfússonar. Svo var rætt við forseta Sjómannasambandsins. Næst fór fréttamaður að velta vöngum um hvort sjómenn væru þvingaðir til að mæta á fundinn.
Næst var kynnt að einhverjir menn boðuðu nú sinn eigin fund gegn mótmælafundinum. Sagði Ríkisútvarpið að 650 manns væru búnir að boða komu sína á þann fund. Svo var rætt við forsvarsmanninn.
Klukkan fjögur hófust síðdegisfréttir Ríkisútvarpsins svona:
Rúmlega 900 manns hafa boðað komu sína á Austurvöll og rúmlega 400 segjast kannski ætla að mæta þangað, nú þegar útgerðarmenn hafa blásið til fundar. Fólkið hefur skráð sig á fésbókarsíðu sem ber heitið „Þetta er auðlindin okkar“, og vill mótmæla LÍU.
Já, þetta er auðvitað aðalmálið. Einhverjir eru að mótmæla mótmælafundinum. Þeir eru auðvitað frétt dagsins. Þeir eru fólkið. Nú eru mótmæli loksins fréttnæm aftur.
Ríkisútvarpið er ósvífin áróðursstöð. Einhvern tímann kemur að því að núverandi stjórnendur þess þurfa að sæta ábyrgð á gerðum sínum.
En raunar segir það verulega sögu um það lið sem er með eyðileggingu sjávarútvegsins á heilanum, að það efni til fundar á sama stað og tíma og aðrir hafa þegar boðað fund. Hvenær hefur slíkt verið gert í íslenskum stjórnmáladeilum? Hvað ætli menn segðu – að ekki sé velt fyrir sér hvað starfsmenn Ríkisútvarpsins segðu – ef einhverjir efndu til kröfugöngu fyrsta maí til að berjast fyrir lægri sköttum, niðurskurði opinberra útgjalda og frelsi undan aðild að verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum, og gengju sömu leið og verkalýðsforkólfarnir og héldu svo útifund á sama tíma og stað í þeim tilgangi að reyna að yfirgnæfa hinn fundinn með bauli, öskrum í gjallarhorn og öðrum fyrirgangi?
Auðvitað þætti öllum það rakinn ofsi og ruddaskapur. En þetta háttalag er auðvitað dæmigert fyrir þá sem eru með kvótakerfis-meinlokur sínar á heilanum. Þar sem vanþekkingin skín af hverju orði, háttvísin er engin en frekjan takmarkalaus.