Helgarsprokið 10. júní 2012

Vefþjóðviljinn 162. tbl. 16. árg.

Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi flaug á dögunum til Parísar í boði flugfélags. Fljótt á litið virðist þetta brot á siðareglum kjörinna fulltrúa í borginni en þar segir í 5. grein:

Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim, er leita eftir þjónustu Reykjavíkurborgar nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.

Einar Örn hefur gefið þá skýringu að hann hafi með því að þiggja þessa ferð ekki brotið siðareglur Reykjavíkurborgar þar sem hann hafi farið ferðina sem prívatpersónan Einar Örn en ekki borgarfulltrúi. Því til sönnunar nefnir hann að eigandi flugfélagsins sé gamall vinur og félagi sinn.

Það verður að segjast eins og er að þetta er ekki frumleg skýring hjá listamanninum. Vinir hafa áður komið sér vel sem milliliðir þegar stjórnmálamenn hafa þurft að útskýra allt frá því að vera staddir í laxveiði á vegum stórfyrirtækja og upp í söfnun á tugmilljóna króna styrkjum daginn áður en lög sem þeir settu sjálfir bönnuðu alla styrki yfir 300 þúsund krónum tóku gildi.

Aðrir Samfylkingarmenn sem tekið hafa að sér að verja Einar Örn í málinu hafa hins vegar bent á að flugfélagið sem um ræðir sé ekki í viðskiptum við Reykjavíkurborg og þar með sé nái siðareglurnar ekki yfir þetta tilvik og Parísarflugið því í himnalagi.

Já var það ekki? Fínu siðareglurnar ná ekki yfir þetta tilvik. 

Vefþjóðviljinn gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvort er verra að siðareglur séu í raun aðeins til skrauts eða að Jón Gnarr borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar Samfylkingarinnar telji það frambærilega skýringu að flugfélag sem þennan dag var að ræsa hreyflana í fyrsta sinn sé bara alls ekki í viðskiptum við Reykjavíkurborg. Ætli flugfélagið muni aldrei kæra sig um viðskipti við Reykjavíkurborg? Til dæmis ekki á þessu kjörtímabili?

Seinni hluti 5. greinar siðareglnanna er svo alveg dæmigerður fyrir reglur af þessu tagi. Hver á að meta hvort líta má á gjafir eða hlunnindi sem greiða fyrir sérstaka þjónustu? Hver eru viðurlögin við því að brjóta siðareglurnar? Þras í fjölmiðlum við pólitíska andstæðinga um hvort þær hafi verið brotnar eða hvort allt var í boði vinar?

Þess utan taka landslög á því þegar menn maka krókinn á kostnað vinnuveitenda sinna.

Og kannski er það helsta markmiðið með siðareglum að færa umræðuna frá því hvort mál varði brot á almennum lögum og mannasiðum yfir í þras og þref um hvort óljósar siðareglur hafi nú verið brotnar.