187. tbl. 15. árg.
Í gær var veikið að því hér hvernig vinstri stjórnin notar skattkerfið til að jafna um menn. Með þessari skattastefnu jafnaðarmanna er ráðist að grunnstoðum efnahagslífsins. Ludwig von Mises lýsti þessu fyrir meira en hálfri öld.
Við skulum ekki stinga höfðinu í sandinn. Sú skattastefna sem menn hafa fylgt að undanförnu stefnir að algjörri jöfnun á auði og tekjum og þar af leiðandi til sósíalisma. Við snúum þessari þróun ekki við nema viðurkenna að hagnaður og tap og tekjumunur sem af því hlýst gegna mikilvægu hlutverki í markaðshagkerfinu. Við verðum að átta okkur á því að velmegun einstakra framleiðenda er afleiðing af því að hagur okkar sjálfra hefur batnað. |
Og vel að merkja var Mises ekki að lýsa neinu sem nálgaðist það sem nú tíðkast á Íslandi.
En er flókið og lamandi skattkerfi ekki réttlætanlegt þegar jöfnuður er markmiðið? Mises svarar því svo:
Að mati lýðskrumara er ójöfn tekjuskipting verri en orð fá lýst. Réttlætið felst að þeirra mati í algjörlega jafnri tekjuskiptingu. Þess vegna þykir þeim eðlilegt að gera eignir hinna efnameiri upptækar og færa þeim sem eiga minna. Þeir sem boða þessa stefnu taka ekkert tillit til þess að hún kunni að leiða til þess að samanlagður auður manna minnki. Jafnvel þótt svo væri ekki þá ýkja menn það hve mikið má bæta hag þeirra sem minnst hafa með þessari aðferð. Neysla ríka fólksins er aðeins brot af heildarneyslunni. Ríka fólkið eyðir hlutfallslega minna af tekjum sínum en aðrir. Stærri hluti tekna þeirra fer í sparnað eða fjárfestingar. Þess vegna er þetta fólk ríkt. Ef þessi sparnaður sem ríka fólkið notar til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum er tekinn og notaður í útgjöld hins opinbera hægir á hagvexti. Þannig hægir á efnahagslegum framförum, tækniframförum og lífskjör batna hægar en ella. |
Steingrímur og Jóhann vísa iðulega til þess að þau séu slökkvilið að störfum. Á hverju eru þau að slökkva?