Helgarsprokið 19. september 2010

262. tbl. 14. árg.

A llt of sjaldgæft er nú orðið að stjórnmálamenn þori að ganga ótilkvaddir gegn straumnum og æsingnum sem iðulega fylgir straumnum. Sjálfsagt eru þingmenn æði oft ósammála gösprurum og rétttrúnaðarmönnum samfélagsins, þótt þeir þegi þá um það eins og þeir lifandi geta og voni heitt og innilega að enginn spyrji þá um þeirra skoðun. Nú upp á síðkastið hafa þó að minnsta kosti tvær ánægjulegar undantekningar verið frá þessu, þar sem þingmenn hafa að eigin frumkvæði tekið til máls til andófs þeim viðhorfum sem hæst er látið með.

Á dögunum skrifaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins mjög athyglisverða grein í Morgunblaðið þar sem hann andæfði af krafti ýmsum ópum og staðhæfingum sem þá höfðu verið settar fram um kirkjuna, og vakti meðal annars athygli á ákafri framgöngu Ríkissjónvarpsins í því skyni. Sigmundur hefði alveg getað sleppt þessu, eins og ímyndarfræðingar hefðu vafalaust ráðlagt honum, en það er honum til hróss að hafa þarna gengið á hólm við hinn hrópandi rétttrúnað.

Nú um helgina birtist svo önnur blaðagrein sem sama má segja um, á ýmsan hátt. Þar svarar Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður Andra Snæ Magnasyni rithöfundi, sem hafði viku áður birt langa grein um hugðarefni sín. Tryggvi Þór skrifar greinina til að minna fólk á nauðsyn verðmætasköpunar, að minnsta kosti ef menn vilja búa við bærileg lífskjör. Hér á landi virðast margir búnir að gleyma þeim augljósu sannindum að einhvers staðar verður að skapa verðmæti, ef menn ætla að geta dreift þeim. Tryggvi Þór skrifar:

Prófið til dæmis að segja erlendum viðmælanda ykkar frá því að gnægð náttúruauðlinda séslík á Íslandi (hlutfallslega) að landið sé eitt ríkasta land heims. Segið sama manni að við eigum við stórkostlega efnahagslega erfiðleika að stríða og það sé hópur fólks sem ekki vilji nýta þessar auðlindir til hagsbóta fyrir alla Íslendinga. Haldið áfram og segið frá því að fyrir nokkrum árum hafi verið reist orku- og álver sem nú skapi um fimmtung útflutningstekna landsins og að það sé til fólk á Íslandi sem finnist það vera klikkun. Haldið enn áfram og segið frá því að alþjóðafyrirtæki á Íslandi séu sögð dónar, þau séu sögð tengd spillingu og hugsanlega mafíunni líka.

Tryggvi Þór bætir við að á öllum málum séu minnst tvær hliðar, og honum þykir greinilega sem margir séu slegnir blindu á jákvæðu hliðina á framkvæmdapeningnum.

En af hverju er hagvöxtur eftirsóknarverður? Það er af þeirri einföldu ástæðu að við viljum efnahagslegar framfarir til handa íbúunum. Ef við til að mynda viljum bæta kjör öryrkja þá eykst samneyslan og það mælist hagvöxtur. en það verður að afla peninganna sem ráðstafa á í örorkubæturnar og til þess þurfum við að framleiða. Ef framleiðsla vex ekki þá getum við ekki bætt kjör öryrkjans nema taka frá einhverju öðru. Þess vegna þurfum við að framleiða meira í dag en í gær. Þannig bætum við lífskjörin. Ekki með því að skipta tekjunum upp á nýtt með endurdreifingu um skattkerfið eins og sumir virðast halda.

En þótt talað sé um nauðsyn þess að framleiða, þá er ekki þar með sagt að sú framleiðsla fari öll fram við færiband í verksmiðju. Í þessum skilningi er framleiðsla einnig til dæmis þjónusta við ferðamenn sem hingað vilja til að sjá aðra náttúrufegurð en þeim býðst á heimaslóðum. Framleiðsla er að sjálfsögðu einnig fólgin í útflutningi á fiski, sem gengur vel enda búa landsmenn við hagkvæmasta fiskveiðistjórnarkerfi sem þekkist í veröldinni, en stjórnvöldum hefur enn ekki tekist að koma því fyrir kattarnef. Og Ísland á gríðarleg verðmæti fólgin í orku fallvatnanna og þeirri sem býr í iðrum jarðar.

Með grein sinni birtir Tryggvi Þór tölur um áhrif álframleiðslu á íslenskt þjóðlíf undanfarin ár. Hann segir að á árinu 2008 hafi bein störf við álframleiðslu á Íslandi verið 1.458 en 940 tveimur árum fyrr. Laun og tengd gjöld vegna þessara starfa hafi árið 2008 verið rúmlega sex og hálfur milljarður króna, en árið 2006 hafi þau verið innan við tveir milljarðar. Launaskattar starfsfólks hafi árið 2008 numið rúmlega þremur milljörðum króna en skattar fyrirtækjanna rúmir tveir milljarðar króna það ár. Fyrirtækin hafi árið 2008 keypt raforku fyrir tæpa 30 milljarða króna og útflutningstekjur af starfsemi þeirra hafi árið 2008 numið rúmlega 162 milljörðum króna. Tveimur árum fyrr hafi raforkukaupin verið fyrir tæpa tíu milljarða og útflutningstekjurnar um 53 milljarðar.

Þessar tölur eru ekkert smáræði. Það munar um 163 milljarða króna útflutningstekjur á einu ári. Það er mikilvægt að menn átti sig á því hvílík verðmæti fást af nýtingu þeirrar orku sem býr í landinu. Með því er auðvitað ekki sagt að menn eigi að virkja allt sem virkjanlegt er, enda heldur líklega enginn maður því fram. En nauðsynlegt er að fólk hafi þessa hluti í huga, næst þegar fjölmiðlar fyllast af öskrandi fólki slettandi skyri og hlekkjandi sig við jarðýtur.
Tryggi Þór vekur máls á fleiri hlutum.

Á undanförnum árum hefur blómstrað nýr iðnaður í heiminum. Þessi iðnaður gengur út á að vera á móti flestu sem elítan í bisness og stjórnmálum – borgarastéttin – tekur sér fyrir hendur. Þar ægir saman alls konar hugmyndum sem flestar standa þó á grunni and-kapitalisma og and-alþjóðavæðingar. Sennilega er frægastur þessara ný-iðnaðarmanna á alþjóðavísu Michael Moore og innanlands títtnefndur Andri Snær Magnason. Andri Snær bætir reyndar um betur og hellir einhverskonar vistfemínisma í súpuna. Málflutningurinn er póstmódernískur – allt gengur ef góð saga er sögð.

Drengirnir sem áður voru hetjur framtíðarinnar í óklipptu draumalandinu eru nú andhetjur og klikkhausar með fósturfitu í hárinu. Ný-iðnaðarmennirnir eru sannir alkemistar – ekki að þeir búi til gull úr skít heldur fá þeir greitt í gulli fyrir að kasta skít.

Gallinn við þennan nýja iðnað er að þar er ekki um neina framleiðslu að ræða – hann þrífst á öryggisleysi fólks, óánægju með eigið hlutskipti, hræðslu við framfarir og því að flestir geta eytt þúsundkalli í vitleysuna. En það er ekki hægt að bæta kjör öryrkjans með því að segja skemmtilegar sögur!

Áróður alkemistanna hér á landi hefur leitt til þess að kominn er til sögunnar hávær hópur fólks sem trúir því að hér á landi sé stunduð náttúrurányrkja á Avatar-skala. Þeir sem stjórna eru miðaldra málaliðar sem samama sig svo feðraveldinu að þeir eru hættulegir – klikkaðir. Þier vilja kúga náttúruna líkt og þeir kúga konur. Oflætið er slíkt að þeir vilja tvöfalda allt. Svona til að gera sögurnar meira krassandi er græðgi, mútum og spillingu (og nú síðast geðveiki) bætt inn. Veikgeðja ráðamenn verða ráðalausir af málflutningnum. Árangur málflutningsins endurspeglast í kyrrstöðunni sem nú kæfir allt á Íslandi vegna hræðslu stjórnmálamanna sem stjórnast af skoðanakönnunum. Ergó, alkemistarnir með málflutningi sínum verða því til þess að ekki er hægt að bæta kjör öryrkjans. Álhausar eins og ég skilja ekki svona kálhausa.