T ony Blair fyrrverandi forsætisráðherra Breta er einn fárra manna utan Íslands sem fengið hefur her íslenskra blaðbera sér til aðstoðar í kosningabaráttu. Svo mikil var aðdáun íslenskra krata á manninum að þeir flykktust á vettvang þegar kosið var til þings í Bretlandi, gengu í hús með bæklinga og fengu jafnvel að berja manninn augum. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra greiddi félagsgjöldin samviskusamlega í breska Verkamannaflokkinn á meðan Blair var leiðtogi hans.
Í gær sagði The Wall Street Journal frá A Journey, nýrri bók eftir Blair. Sérlega þykja blaðinu bitastæðar lýsingar hans á fjármálakreppunni og hvernig var brugðist við henni.
Það sem brást var skilningur okkar. Við sáum ekki í tíma hvað var að gerast. Það má auðvitað segja að við hefðum átt að sjá þetta fyrir, en við gerðum það ekki. Nú þegar menn eru að setja nýjar reglur er afskaplega mikilvægt að gera sér grein fyrir að við höfðum öll tæki til að bregðast við ef við hefðum séð í hvað stefndi. Regluverkið brást ekki í þeim skilningi að okkur hafi skort úrræði til að skerast í leikinn. Ef eftirlitsstofnanir hefðu sagt við stjórnmálaleiðtoga að mikil kreppa væri að skella á hefðum við ekki svarað með því að við gætum ekkert gert fyrr en búið væri að breyta reglum og eftirliti. Við hefðum brugðist við. |
Þetta eru vissulega athyglisverð orð. Blair var einn forystumanna um þriðju leiðina svonefndu. Í henni felst að gera markaðinn fullkominn með því að fínstilla hann með eftirlitsstofnunum og regluverki. Sníða af honum agnúana með opinberum afskiptum. Engin starfsemi hefur haft meira af slíkum reglum og eftirliti en fjármálakerfið. Vefþjóðviljinn hefur oft kallað þetta að skapa falskt öryggi. Þar sem falskt öryggi er til staðar gera menn oft mistök. Spyrjið bara innlánseigendur á Icesave-reikningunum. Þeir létu peninga sína gossa inn á netreikning banka sem þeir þekktu hvorki haus né sporð á, aldrei heyrt um fyrr en þeir sáu auglýsingar um ævintýralega ávöxtun í strætóskýli. Hví ekki? Bankinn var undir eftirliti íslenska og breska fjármálaeftirlitsins og naut innlánstrygginga samkvæmt tilskipun sjálfs Evrópusambandsins.
Blair segir einnig í bókinni að markaðurinn hafi ekki brugðist sem slíkur heldur aðeins einn hluti hans. Hann bætir svo við:
Ríkisvaldið brást einnig. Regluverkið brást. Stjórnmálamenn brugðust. Peningamálastefnan brást. Lánsfé varð alltof ódýrt. Það var ekki samsæri bankanna heldur afleiðing af því að saman fór að því er virtist meinlaust flæði ódýrs fjármagns og lítil verðbólga. |
Markaðurinn er ekki fullkominn og verður það aldrei. En ekki dregur úr líkum á almennum mistökum, ofmati á eignum og röngum fjárfestingum, ef reynt er að telja fólki trú um að hægt sé að koma í veg fyrir öll mistök með eftirlitstofnunum og regluverki hins opinbera. Líkurnar á almennum mistökum, sem birtast okkur í kreppu, aukast jafnframt mjög ef hið opinbera er með puttana í peningamálum, setur lánsfé á útsölu og brenglar þar með öll skilaboð á markaðnum.