Þriðjudagur 9. mars 2010

68. tbl. 14. árg.

Þ að er margt með ólíkindum í málflutningi fyrir Icesave ánauðinni. Fátt er þó eins þverstæðukennt og sú krafa að „við“ tökum á okkur óbærilegar byrðar til þess að eiga kost á frekari byrðum frá „frændum okkar“ á Norðurlöndunum.

Það er kannski kominn tími til að skoða í hvað á að nýta þessi fínu lán frá fínu frændum okkar á Norðurlöndunum. Fljótt á litið virðist ríkisstjórnin hafa hugsað sér þrennt:

  • Í fyrsta lagi á að nota þessi lán til að komast hjá því að spara hjá hinu opinbera. Það á einfaldlega að reka ríkissjóð með yfir 100 milljarða króna halla á ári um ókomna tíð.
  • Í öðru lagi á að nota lánsféð til styðja við pappírspeninga ríkisins með gjaldeyrisvaraforða.
  • Í þriðja lagi verður féð notað til að greiða, já, lausn úr Icesave ánauðinni, bæði óheyrilega vexti af lánum Breta og Hollendinga til Tryggingasjóðs og svo höfuðstólinn hrökkvi eignir þrotabús Landsbankans ekki til.

Það hefur lítil sem engin umræða farið fram um þessa ráðstöfun á lánsfénu sem ríkisstjórnin þráir. Er einhver glóra í þessum þremur útgjaldapóstum?

Er ekki mögulegt að draga úr ríkisútgjöldunum í stað þess að taka meiri lán? Er ekki hægt að losna við þennan gjaldmiðil íslenska ríkisins sem þarf svo gríðarlegan stuðning af lánsfé í annarri mynt? Er ekki hægt að benda Bretum og Hollendingum á að samkvæmt lögum um Tryggingasjóð innistæðueigenda eru það fjármálastofnanir sem greiða í sjóðinn, ekki ríkissjóður Íslands. Ríkissjóður hefur aldrei greitt í þennan sjóð eða veitt honum ábyrgð. Síðasta tilraun til þess að koma ábyrgðinni á ríkissjóð var felld 98-2.

V ar nauðsynlegt að bæta því ofan á aðra glettni við þessa ríkisstjórn að hún skyldi kenna sig við norræna velferð? Svo koma norrænir stjórnmálaleiðtogar í bunum og krefjast þess að Ísland verði hneppt í Icesave ánauðina áður en þeir geti hugsað sér að rétta hjálparhönd.