Helgarsprokið 9. maí 2010

129. tbl. 14. árg.

B retar kusu sér nýtt þing í síðustu viku og þarf ekki að efast um að margir íslenskir áhugamenn um þjóðmál hafa fylgst spenntir með. Bretar hafa afar langa reynslu af lýðræðislegri stjórnskipan og talsvert vit á henni líka, og gætu margir töluvert lært af Bretum í þeim efnum, ekki síst þeir sem hæst tala annars staðar um lýðræði og stjórnarfarsumbætur. Svo er auðvitað til hin útgáfan, sem telur sig geta leiðbeint Bretum af þekkingu sinni og langri reynslu af lýðræðislegum vinnubrögðum, eins og Ólafur Ragnar Grímsson tók óbeðinn að sér í viðtali við BBC í ársbyrjun, við almenna hrifningu landa sinna.

Eitt af því sem Bretar hafa fram yfir flesta, er að þeir eiga ekki skráða stjórnarskrá. Engu að síður stendur stjórnskipanin traustum fótum og stjórnmálamenn virða grunnreglur hennar, þó stundarhagsmunir þeirra kynnu að bjóða annað. Er það sérstakt lærdómsatriði fyrir nýjustu útgáfu íslenskra ráðamanna, þar sem ríkisstjórn er öskruð frá völdum og þjóðhöfðinginn er manna virkastur bak við tjöldin í að mynda nýja ríkisstjórn samherja sinna, gegn ráðleggingum sitjandi forsætisráðherra, og þvert á stjórnskipulegar þingræðisvenjur. Og að sjálfsögðu höfðu fréttamenn og álitsgjafar ekkert við það að athuga. Hvarflaði líklega ekki að þeim að nokkuð væri athugavert.

„Flokkakerfi Íslendinga gerir einherjatrúðum erfiðara fyrir með framboð en á Íslandi eru þeir í staðinn vinsælir gestir í umræðuþáttum, þar sem allir viðstaddir láta eins og þeir hafi sett fram mjög merkilegar skoðanir. Svo fær gesturinn að mala um kenningar sínar, sem iðulega eru byggðar á samblandi af meinlokum og misskilningi, en allir halda andlitinu og láta eins og fram hafi farið brýn þjóðmálaumræða. Hluti af prógramminu er að enginn nefnir augljósar veilur í röksemdafærslu gestsins, hann fer svo hamingjusamur heim og vinir hans stela þættinum og birta á netinu.“

Þeir Íslendingar sem fylgdust með breskum fjölmiðlum í kosningabaráttunni, kosningakvöldið og dagana nú þar á eftir, hafa án vafa tekið eftir öðru sem sker í íslensk augu. Á Íslandi finnst ýmsum að íslenskir stjórnmálamenn og íslenskir bankamenn séu minni spámenn en kollegar þeirra í öðrum löndum. Kannski er eitthvað til í því, þó líklegt sé nú að í báðum löndum sé misjafn sauður í mörgu fé. En annar samanburður yrði Íslandi til muna óhagstæðari en þessi. Sá sem fylgist með þjóðmálaumræðu í breskum fjölmiðlum undrast samfellt hvílíkt regindjúp er milli breskra fréttamanna, þáttastjórnenda og álitsgjafa og svo þeirra sem fara með svipuð hlutverk á Íslandi.

Þeir eru ekki allir jafn hlutlausir, bresku fjölmiðlamennirnir. En í öðru bera þeir af íslenskum kollegum sínum. Í Bretlandi virðist vanþekking, sem reynt er að breiða yfir með fullyrðingagirni, ekki þykja sérstök dyggð, eins og virðist oft vera í íslenskum fjölmiðlum. Breskir fréttamenn eru iðulega vel heima í þeim málum sem efst eru á baugi, og þekkja einnig ósjaldan vel til sögunnar og fyrri atburða. Fréttamenn margir hverjir hér á landi, virðast afskaplega lítið fróðir um þau mál sem þeir fjalla um, með þeim afleiðingum að augljósra spurninga er ekki spurt og aukaatriði verða að aðalatriðum og öfugt. Stundum ræður að vísu hlutdrægnin þessari frammistöðu og fréttamaðurinn sleppir því einfaldlega að spyrja þess sem hann vill ekki að verði spurt. En oft er það líklega vanþekkingin meiru ræður.

Eitt af því sem kryddar bresku kosningakvöldin eru furðufuglarnir sem bjóða sig fram í sumum einmenningskjördæmanna, einkum þar sem þekktir menn eru í framboði fyrir stóru flokkana og vænta má sjónvarpsvéla. Grafalvarlegir á svip, en klæddir eins og trúðar, standa þeir uppi á sviði við hliðina á utanríkisráðherranum og allir bíða rólegir eftir því að heyra atkvæðatölu sína lesna upp. Svo heilsast menn með virktum áður en ráðherrann heldur ávarp og þakkar kjörstjórninni fyrir að telja og bæjarstjórninni fyrir að lána húsið, og lýkur síðan ræðunni á því að mesti heiður sem sér hafi verið sýndur sé að hafa verið valinn af fólkinu í einmitt þessu kjördæmi og muni hann næstu árin vinna dag og nótt að hagsmunum héraðsins og engu öðru. Flokkakerfi Íslendinga gerir einherjatrúðum erfiðara fyrir með framboð en á Íslandi eru þeir í staðinn vinsælir gestir í umræðuþáttum, þar sem allir viðstaddir láta eins og þeir hafi sett fram mjög merkilegar skoðanir. Svo fær gesturinn að mala um kenningar sínar, sem iðulega eru byggðar á samblandi af meinlokum og misskilningi, en allir halda andlitinu og láta eins og fram hafi farið brýn þjóðmálaumræða. Hluti af prógramminu er að enginn nefnir augljósar veilur í röksemdafærslu gestsins, hann fer svo hamingjusamur heim og vinir hans stela þættinum og birta á netinu.

Á Íslandi þykir líka sjálfsagt að þáttastjórnendur fái skoðanabræður sína í löng einkaviðtöl þar sem engra gagnrýnna spurninga sé spurt. Einn vinsæll viðmælandi vinstrisinnaðra fjölmiðlamanna er Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði, sem er orðinn svo tíður gestur að menn gætu haldið að hann væri stjórnsýslufræðingur eða heimspekingur ofan af Bifröst. Stefán er almennt ekki spurður gagnrýnna spurninga heldur fær að tala og tala óáreittur, í endalausum speglum og víðsjám og hvað þeir heita allir þættirnir í hinu hlutlausa íslenska ríkisútvarpi.

Síðastliðinn laugardag skrifaði Sveinn Tryggvason verkfræðingur grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Háskóli Íslands í fallhættu“, og fjallaði þar meðal annars um opna umræðufundi sem Háskólinn hefði haldið um nýútkomna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Segir Sveinn að sum erindi á fundunum hafi verið „góð, skýr, málefnaleg og fróðleg“, en nokkur hafi hins vegar verið „á mörkunum að geta talist boðlegt framlag háskólasamfélagsins. Órökstuddar alhæfingar, aulabrandarar á kostnað einstaklinga og óyfirveguð og ósanngjörn meðferð á viðfangsefninu“ eigi „ekki heima í erindum háskólamanna sem taka sjálfa sig hátíðlega“. Þarna hafi Háskóli Íslands valdið vonbrigðum.

Sveinn nefnir sérstaklega Stefán Ólafsson prófessor og segir hann hafa verið „lengst allra frá vísindalegri hlutlægni“ enda hafi hvað rekið sig á annars horn í erindi hans. Í stað þess að „gera tilraun til að byggja á rökum og álykta út frá þeim kaus prófessorinn að nýta tækifærið til að nýta tækifærið til að viðra gamalkunnar ásakanir á hendur pólitískum andstæðingum.“ Og varla þarf að taka fram að Stefán var mættur í Vinstrispegil Ríkisútvarpsins fljótt á eftir til að endurþylja sömu þulu yfir hlustendum.

Sveinn nefnir í grein sinni dæmi um það sem hann kallar furðuleg öfugmæli Stefáns, sem hafi viljað kenna tiðaranda frjálshyggju um bóluhagkerfi sem sprungið hafi í bankahruninu. Bendir Sveinn á aldarlanga baráttu frjálshyggjumanna gegn verðbólum og þeirri afskiptasemi hins opinbera um veröldina, sem ýtt hafi undir áhættutöku fjármálamanna. Sveinn segir að ræðumenn Háskólans hafi verið ákaflega einsleitur hópur: „Annað sem einkenndi umræðuna og ályktanir og skoðanir frummælenda var einsleitnin. Því var haldið fram að sökudólgurinn væri frjálshyggjan, afskiptaleysið og skortur á lögum. Um leið var því slegið föstu að ástæður hrunsins hefðu legið í stærð bankanna miðað við stærð hagkerfisins og þannig getu seðlabankans og ríkisins til að hlaupa undir bagga með bönkunum. Engin frummælenda nefndi að frjálshyggjumenn hafa áratugum saman bent á að þrautavaralán frá seðlabönkum og ýmis önnur afskiptasemi ríkisins ýttu undir áhættusækni í fjármálakerfinu og reglubundið hrun. Afstaða flestra frummælenda var að þessu leyti einsleit og umgjörð Háskólans því ekki „vísindaleg“.“

Grein sinni lýkur Sveinn á gagnlegri brýningu:

Það er sök sér að tilhneiging prófessors í Háskóla Íslands til stjórnmálaáróðurs reki hann í ógöngur. Það er öllu verra að Háskóli Íslands bjóði ekki upp á fjölbreyttari, uppbyggilegri og yfirvegaðri umgjörð en raun ber vitni.

Framtak HÍ um opna umræðufundi er lofsvert. Hjarðmenningin, einstefnan og gagnrýnisleysið má hins vegar ekki verða fræðasamfélaginu jafn skeinuhætt og tilfellið varð með íslenska fjármálakerfið. Ég hvet því rektor Háskóla Íslands og annað forystufólk íslenska fræðasamfélagsins til að gera betur.