Í síðasta mánuði birti Morgunblaðið opnuviðtal við Ögmund Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem talaði tæpitungulaust. Hann sagði formenn núverandi stjórnarflokka, Steingrím og Jóhönnu, hafa sett sér afarkosti; samstarfsflokkurinn Samfylking væri „alltof leiðitöm erlendum öflum“, og hreinlega „afar höll undir frjálshyggju“. Ögmundur kvaðst hafna áherslu ríkisstjórnarinnar á erlendar lántökur og hann sagði sér hafa „sárnað mjög“ er flokksformaður hans, Steingrímur J. Sigfússon, reyndi að grafa undan trúverðugleika hans, á örlagastundu á stjórnmálaferli Ögmundar.
Allt var viðtalið fullt af verulega fréttnæmum atriðum. Svonefnd „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur hins vegar enn ekki frétt af viðtalinu. Á sama tíma og Ögmundur Jónasson talaði, við algert áhugaleysi „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ um óheildindi Steingríms J. Sigfússonar í sinn garð, flutti „fréttastofan“ miklar fréttir um og úttektir á því að einn blaðamaður á Morgunblaðinu væri óánægður með að forstjóri útgefandans hefði opnað tvö tölvubréfa hans, í framhaldi af grunsemdum um að starfsmaðurinn seldi trúnaðarupplýsingar. Forstjórinn skýrði síðar málið og birti reglur blaðsins, en þá hvarf áhugi „fréttastofunnar“ um leið.
Þegar tillögu um að Ísland sækti um inngöngu í Evrópusambandið var þrýst í gegnum Alþingi, gerðist sá fáheyrði atburður að drjúgur hluti forystumanna vinstrigrænna í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar skrifaði honum opið bréf og kallaði hann „ómerking“ vegna svika hans í Evrópusambandsmálinu. Undir bréfið skrifuðu fjölmargir frambjóðendur flokksins í kjördæminu, sem sátu á lista með Steingrími, oddviti flokksins í langstærsta sveitarfélaginu og trúnaðarmenn víða úr kjördæminu. Þarna voru augljóslega stórtíðindi á ferð.
Svonefnd „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ þagði eins og steinn yfir málinu þar til búið var að samþykkja Evrópusambandsinngöngubeiðnina á alþingi með handjárnum og svipuhöggum á þingmenn vinstrigrænna. Þá lét „fréttastofan“ loks svo lítið að segja frá málinu og afgreiddi það snögglega sem sjöundu frétt, á tuttuguogfjórum sekúndum, og hefur aldrei minnst á það síðan.
Í gær las fréttastofan hátíðlega upp öll opinberu stéttarfélögin sem nú mótmæla því að sparað verði hjá fæðingarorlofssjóði. Nú vantar ekki fréttirnar, í hverjum fréttatíma er viðtal við nýjan andstæðing sparnaðarins, kastljós Ríkissjónvarpsins er undirlagt og málinu verður haldið vakandi þar til ríkisstjórnin gefst upp á skástu hugmynd sinni.
Ekki kæmi Vefþjóðviljanum á óvart þó „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefði nú þegar náð að fjalla lengur um „alvarlegar afleiðingar þess að skerða greiðslur úr fæðingarorlofssjóði“ en um léttvægar afleiðingar þess að Ísland verði látið gangast í ábyrgð fyrir Icesave-reikningunum. Tekur hinn ofboðslegi áhugi á fæðingarorlofsmálinu nú við af síðasta stórmáli „fréttastofunnar“, sem var gagnrýni Femínistafélagsins á stjórn Knattspyrnusambands Íslands, en þar hafa ítrekað verið lesnar upp ályktanir, birt viðtöl við femínista og setið um höfuðstöðvar knattspyrnusambandsins til að þrýsta á um afsögn stjórnarmanna.
Eftir rúmlega hálft ár af vinstristjórn hefur það nú í fyrsta sinn gerst að „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ sýnir ríkisstjórninni aðhald í einu máli. Og þá er það hugsanlegur niðurskurður til peningasugunnar fæðingarorlofssjóðs. Því þó vinstrislagsíðan á yfirstjórn „fréttastofunnar“ sé gríðarlega mikil, þá er femínisminn þar innanhúss svo rammur, að jafnvel skjaldborgin, sem „fréttastofan“ hefur slegið um ríkisstjórnina allt frá upphafi, fær ekki staðist hann.