Paul Fontaine Nikolov blaðamaður á tímaritinu Grapevine hefur undanfarið haldið því fram að innflytjendur séu afskiptir á Íslandi og aðlagist ekki Íslendingum nægilega. Vafalaust er ekki tekið á móti öllum innflytjendum með opnum örmum alls staðar á Íslandi en það sama má segja um margan Íslendinginn. Sjáiði bara hana Ingibjörgu Sólrúnu, hún aðlagast ekki einu sinni eigin stjórnmálaflokki samkvæmt nýjustu könnunum. Og ekki höfðu íslenskir kjósendur áhuga á að ráða hana til þingstarfa í síðustu þingkosningum en langflestir innflytjendur fá hins vegar vinnu um leið og þeir stíga af flugrútunni. En hvert er svar Nikolovs við því að innflytjendur hristast ekki nægilega saman við þjóðina? Jú hann ætlar að stofna sérstakan stjórnmálaflokk innflytjenda. Það er út af fyrir sig einkennileg hugmynd að innflytjendum muni líða betur við það að þeim sé skipað í sérstakan flokk sem tekst á við aðra flokka í kosningum. Það eina sem er augljóst að slíkur flokkur mundi afreka er að hleypa andstæðingum innflytjenda kapp í kinn og þeir fengju jafnvel þrek til að stofna ljóta stjórnmálaflokkinn sem þá hefur dreymt um.
En það er ekki síður fjarstæðukennt að setja alla innflytjendur undir sama hatt enda er staða þeirra og hagmunir jafn ólíkir og þeir eru margir.
Milli útsendinga frá heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu má nú oft sjá skondna auglýsingu frá Flugleiðum þar sem áhorfendur eru hvattir til ferðalaga undir slagorðinu „hugurinn ber þig aðeins hálfa leið“. Í bakgrunni auglýsingarinnar syngur jaxlinn Pálmi Gunnarsson einn af sínum þekktu smellum og heildarmyndin er ósköp viðkunnanleg.
Það eina sem vekur spurningar er þetta ágæta lag sem Pálmi syngur. Úr því auglýsingin er frá flugfélagi og ætluð til að ýta fólki í ferðalög, þá væri gaman að vita af hverju lag auglýsingarinnar sé hið þekkta lag Jóhanns G. Jóhannssonar, Hvers vegna varstu ekki kyrr?