Föstudagur 3. nóvember 2006

307. tbl. 10. árg.

F regnir berast nú að því að stjórnmálaflokkarnir séu að koma sér saman um reglur um fjármál flokkanna. Eins og Vefþjóðviljinn hefur svo oft varað við þá eru hagsmunir skattgreiðenda fyrst í verulegri hættu þegar flokkarnir sameinast gegn þeim í þverpólitískri orgíu. Ef marka má fréttirnar ætla flokkarnir að nota tækifærið þegar reglurnar verða settar og stórauka opinberan stuðning við sjálfa sig. Þetta er afleitt út frá fleiri sjónarmiðum en skattgreiðenda.

Þeir stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi eru auðvitað með verulegt forskot á nýja flokka og framboð hvað kynningu varðar enda störf þingmanna dagleg viðfangsefni fjölmiðla. Það er eiginlega engin ástæða til að auka þetta forskot á ný framboð með því að ausa meira fé í flokkana úr ríkissjóði. Stjórnmálaflokkarnir fá nú þegar nokkur hundruð milljónir króna úr ríkissjóði.

Annað sem flogið hefur fyrir er að fyrirtækjum og jafnvel einstaklingum verði bannað að styrkja flokkana. Þetta mun aðeins hafa eitt í för með sér. Peningarnir leita í annan farveg. Sett verða upp félög til hliðar við flokkana sem reka áróður fyrir stefnumálum einstakra flokka og gegn andstæðingum þeirra.

Það má svo velta því fyrir sér hvort næsta skref í hinni þverpólitísku samstöðu um fjármál flokkanna verði svo að banna hina dýrmætu sjálfboðaliðsvinnu sem margir stunda fyrir flokkinn sinn. Hún er auðvitað ígildi fjárframlags. Kannski fá flokkarnir þá sjálfboðaliða frá ríkinu til að hringja í kjósendur og bera út bæklinga.