Miðvikudagur 2. nóvember 2005

306. tbl. 9. árg.

Í illviðrinu síðustu daga hafa sumir lent í því að þurfa að sitja fastir í bílum sínum eftir að hafa í ógáti þvælst út í ófærð. Í fréttum kvartaði einn þeirra sem lenti í þessu yfir því að Ríkisútvarpið skyldi ekki notað til að upplýsa ökumenn um ófærðina, hann hefði hlustað á Ríkisútvarpið allan tímann en samt ekki fengið upplýsingar um stöðuna. Þetta er réttmæt athugasemd í ljósi yfirlýsts „öryggishlutverks“ Ríkisútvarpsins, en þetta er þó ekki í fyrsta sinn og örugglega ekki heldur það síðasta sem Ríkisútvarpið tekur útsendingu á almennu afþreyingarefni fram yfir öryggishlutverkið. Eitt skýrasta dæmið um hve illa Ríkisútvarpið sinnir meintu öryggishlutverki sínu er frá 17. júní 2000 þegar jarðskjálftarnir miklu skóku Suðurlandið og Sunnlendingar þurftu upplýsingar um ástandið og viðbrögð við því. Um þetta sagði Vefþjóðviljinn:

Skelkaðir Sunnlendingar gerðu það eina rétta, þeir kveiktu á hljóðvarpi Ríkisútvarpsins en því miður var FM sendir öryggistækis allra landsmanna óvirkur eftir skjálftann. Þá lá beinast við að kveikja á Ríkissjónvarpinu til að fá óbrenglaðar upplýsingar, rétta mynd af stöðunni óháða hagsmunum einkaframtaksins. Og þar var stöðug útsending fyrstu klukkutímana eftir skjálftana. Ríkissjónvarpið stóð vaktina og sendi látlaust út fótboltaleik Portúgals og Rúmeníu. Eftir langa mæðu kom texti á skjáinn þess efnis að hálftíma síðar yrði gert stutt hlé. Það hlé varð örstutt og svo hélt leikurinn áfram. Í hálfleik voru auglýsingar enda er Ríkissjónvarpið óháð duttlungum auglýsenda. Eftir leikinn var þess getið að nú mætti engan tíma missa – og sjónvarpsmönnum lá svo á að þeir gáfu sér varla tíma til að endursýna sigurmark Portúgals – því mikið lá við. Kappaksturinn var nefnilega byrjaður. Bein útsending frá Formúlu eitt.

Önnur röksemd sem jafnan hefur verið fyrirferðarmikil hjá formælendum Ríkisútvarpsins er að það hafi menningarhlutverki að gegna. Nú má svo sem skilgreina menningu með ólíkum hætti og í víðasta skilningi má jafnvel segja að menning sé allt sem við kemur manninum. Slík skilgreining er þó gagnslaus í þessum skilningi og þess vegna hlýtur frekar að vera átt við það sem stundum er kallað hámenning, sem gjarnan er kostnaðarsöm menningarstarfsemi sem byggir á gamalli hefð en tiltölulega fáir hafa áhuga á að fylgjast með. Ekki er neitt við slíka menningarstarfsemi að athuga, en þó verður að segjast eins og er að Ríkisútvarpið sinnir þessu menningarhlutverki sínu ekki sérlega mikið. Sem er út af fyrir sig ágætt og ekki verður mælt með því hér að ríkið eigi að sinna slíku hlutverki.

Öryggis- og menningarsjónarmið eru oft haldreipið sem stuðningsmenn Ríkisútvarpsins reyna að hanga á þegar rekstur ríkisins á fjölmiðli er gagnrýndur. Þar sem þau halda ekki má sjá að Ríkisútvarpið á sér ekki einu sinni tilverurétt út frá sjónarmiði þeirra sem fallast á þessar röksemdir.