Nú er verið að semja um næsta R-lista. Viðræður eigendahópsins hafa nú komist nokkuð á veg eftir að framsóknarmenn lögðu fram tillögur um það sem öllum finnst mestu máli skipta; hver fær hvaða embætti. Ekki hafa borist eins miklar fréttir af umræðum um stefnu væntanlegs framboðs þó einhver einfeldningur hefði kannski haldið fyrirfram að þremur ólíkum flokkum, sem ætluðu að leggja fram sameiginlegt framboð, lægi ef til vill meira á að koma sér saman um stefnu en frambjóðendur. En R-listinn hefur raunar alltaf snúist fremur um menn en málefni, eins og meðal annars má sjá af hversu einráðir einstakir borgarfulltrúar hans virðast fá að vera, hver í sínu léni. Og af því að málefnin skipa ekki stærri sess en raun ber vitni, þá virðast fæstir innan R-listans sjá mikið að því þó að kosningaloforðin fari nú svona og svona. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lofaði að hækka ekki skatta. Útsvarið rauk upp, þó iðulega hafi verið reynt að fela hækkanirnar með því að samræma þær skattalækkunum ríkisins. Helgi Hjörvar lofaði að „lækka gjöld á borgarbúa“. Sennilega er hugverk R-listans, holræsagjaldið, skýrasta dæmið um þá gjaldalækkun. Það átti nú aldeilis að halda vel á fjármálum borgarinnar. Skuldir hennar hafa margfaldast svo gríðarlega að ótrúlegt er, þó borgaryfirvöld reyni að fela skuldirnar með því að færa þær frá borgarsjóði yfir í stofnanir, sem borgin þó ber ábyrgð á. Um ekkert af þessu ræða menn núna á undirbúningsfundum væntanlegs framboðs. Þar er skipting embætta eina mál á dagskrá. R-listinn snerist um að ná völdum og nú snýst hann um það eitt að halda þeim.
En eru borgarbúar ekki bara sáttir? Af hverju er alltaf verið að hamra á skuldum og sviknum loforðum, eru þetta ekki bara hróp út í loftið, sennilega misskilningur að auki, því ekki benda skoðanakannanir til þess að borgarbúar séu mjög heitir út í R-listann?
Það er alveg rétt, að skoðanakannanir gefa vísbendingar í þá átt að meirihluti borgarbúa sé ekki ósáttari en svo að R-listinn haldi völdum eitt kjörtímabilið enn. Það hlýtur að vera áhyggjuefni þeirra sem áhyggjur hafa af því hvernig haldið hefur verið á málum á borgarskrifstofunum undanfarin ár. En hvernig stendur á því, ef allt er eins ómögulegt hjá R-listanum og margir segja, að fólk er ekki búið að fá yfir sig nóg? Hefur R-listinn kannski staðið sig svona miklu betur en Vefþjóðviljanum finnst? Nú er auðvitað ekki gott að segja hvað ræður afstöðu hvers og eins til mála, en hér verður eitt atriði nefnt, þó með því sé auðvitað ekki sagt að önnur skipti ekki máli. Fréttaflutningur úr borgarstjórn og af borgarmálum er með allt öðrum hætti en af landsmálum. Það er mjög sjaldgæft að fréttamenn bjóði upp á ýtarlegar skýringar eða frásagnir af því sem fram fer í borgarmálum. Yfirleitt eru örstutt viðtöl við oddvita látin duga. Ef opnað er dagheimili þá kemur Steinunn Valdís og klippir á borða. Ef barnaheimili er lokað þá er stutt viðtal við Berg Felixson, og þá er það helsta upp talið. Innan borgarstjórnar fara hins vegar fram umræður rétt eins og á alþingi. Borgarfulltrúar leggja fram sínar fyrirspurnir eins og þingmenn og fá svör eins og þeir. En ekkert af því fer í fréttir. Fréttamenn liggja yfir alþingi en ekki sölum borgarstjórnar. Hvernig ætli landslagið væri ef fólk hefði fengið sömu nærmynd af málefnum Reykjavíkurborgar og það hefur fengið af landsmálum undanfarin áratug eða svo? Ætli allir stuðningsmenn R-listans væru ánægðir með samanburðinn? Hver veit.
Vikulega birtir Viðskiptablaðið pistla Ólafs Teits Guðnasonar um fjölmiðla. Er óhætt að segja að það sé vel þess virði að gera sér ferð á sölustað á föstudögum til að ná sér í eintak af blaðinu, þó ekki væri fyrir neitt annað efni þess. Fyrir nokkru voru allir pistlar Ólafs Teits á síðasta ári gefnir út á bók, sem nefnist Fjölmiðlar 2004 og í þeirri bók má meðal annars lesa þetta úr pistli sem birtist 19. nóvember það ár:
Ég er ekki frá því að meira hafi farið fyrir fréttum um það, hve vafasamt væri af ríkisstjórninni að lækka skatta, en af því að Reykjavíkurlistinn sé um þessar mundir að hækka skatta. Merkilegt. Ljósvakamiðlarnir sögðu ekkert frá umræðum um skattahækkanirnar í borgarstjórn, sem fram fóru síðdegis á þriðjudag. Sjónvarpið kallaði að vísu á leiðtogana og fékk hjá þeim stutt ummæli áður en umræðan hófst, en sýndi ekkert frá umræðunum sjálfum, í það minnsta ekki í aðalfréttatíma. Hugsanlega vegna þess að Reykjavíkurlistinn dró þær langt fram eftir degi. Fyrst þurfti að ræða í löngu máli um stjórnkerfisbreytingar Dags B. Eggertssonar. Þegar loks kom að sköttunum höfðu ljósvakamiðlarnir ekki tíma til þess að vinna úr þeim fyrir fréttir kvöldsins. Við skulum að minnsta kosti gefa okkur að það hafi verið ástæðan, fremur en áhugaleysi. Ég veit hins vegar ekki hvaða afsökun Fréttablaðið hefur. Það minntist ekki á umræðurnar, hvorki í blaðinu á miðvikudag né fimmtudag. Morgunblaðið sagði hins vegar frá þeim á miðvikudag. |
Það er athyglisvert hvað minnihlutinn á alþingi hefur miklu betri möguleika á að komast að í fjölmiðlum en minnihlutinn í borgarstjórn. Þegar stjórnarandstæðingur fer fram á utandagskrárumræðu eru oftar en ekki sagðar fréttir af því áður en umræðan fer fram. Ekki það nei? Hádegisfréttir á þriðjudaginn var: „Árni Magnússon félagsmálaráðherra svarar því á alþingi í dag hvernig hann hyggst bregðast við vaxandi fordómum í garð innflytjenda hér á landi. […] [svo] Utandagskrárumræða verður á Alþingi eftir hádegi um stöðu innflytjenda að frumkvæði Bryndísar Hlöðversdóttur Samfylkingu.“ Já, viðkomandi er dreginn í viðtal til að segja okkur um hvað eigi að ræða. (Í þessu tilviki var haft eftir Bryndísi hvað hún hefði um málið að segja.) Umræðan fer síðan fram í upphafi þingfundar skömmu eftir hádegi, á besta tíma fyrir fjölmiðla. Og fær oftast sitt pláss í fréttum um kvöldið (reyndar ekki í þetta skipti, einhverra hluta vegna, þannig að við fengum ekki að vita hverju Árni svaraði). Umræður um skattahækkanir R-listans fara hins vegar fram í kyrrþey í Ráðhúsinu um kvöldmatarleytið fyrir nánast tómum sal. |