Ferð á Hvanndali mun freista mjög margra, meðal annars erlendra ferðamanna, þegar það spyrst að þar hafi verið einangruðust mannabyggð við Norður- Atlantshaf. Ennþá vita þeir ekki af því. Eða af mannlífssögu þar. Á Hvanndölum má segja að gerð hafi verið tilraun um þanþol manns. Slíkir þættir úr mannkynssögu alþýðunnar eru menningarminjar. En hvortveggja staðurinn, Héðinsfjörður og Hvanndalir, munu strax glata sínum sjarma og aðdráttarafli – þegar þögn Héðinsfjarðar er rofin af látlausum dyn frá bifreiðum tæknialdar. Þar verður þá ekki lengur hægt að upplifa sömu einveru eða frið og áður; né söguna. |
– Valgarður Egilsson læknir og rithöfundur í Morgunblaðinu 3. september 2005. |
Það er ekki ofsögum sagt að ríkisvaldið sé helsti óvinur náttúrunnar. Styrkir til landbúnaðar svo sem sauðfjárræktar og framræsingar mýra eru sláandi dæmi um ríkisafskipti sem bitnað hafa á íslenskri náttúru. Með ríkisrekstri, ríkisstyrkjum, ríkisábyrgðum og öðrum ríkisafskiptum verða alls kyns framkvæmdir sem ganga á náttúruna sem engum hefur dottið í hug að séu arðbærar allt í einu „þjóðhagslega arðbærar“. Þess vegna er svo einkennilegt hvað margir líta til ríkisins um forsjá í umhverfismálum.
Ein af þessum „þjóðhagslega arðbæru“ framkvæmdum eru göng og vegur um eyðifjörðinn Héðinsfjörð á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Valgarður Egilsson gerir þessari framkvæmd skil í grein í Morgunblaðinu í dag. Í greininni bendir Valgarður á það sem ætti að blasa við öllum mönnum að það er stórundarlegt að Siglfirðingar vilji göng í þessa átt í stað ganga í suður undir gamla veginn í Siglufjarðarskarði. Með slíkum göngum yrði núverandi leið til Siglufjarðar, hin varasama leið um Almenninga og Strákagöng, lögð af. Valgarður bendir einnig á að vegna landrofs geti orðið erfitt að halda leiðinni um Almenninga opinni til frambúðar. Ef það reynist rétt þarf því hvort sem er að grípa til annarra ráðstafana á borð við göng undir Siglufjarðarskarðið. Valgarður segir að fyrir það fé sem áætlað er í Héðinsfjarðargöngin mætti bæði grafa göng til vesturs úr Siglufirði og göng gegnum Vaðlaheiði. Ávinningurinn af þessum tveimur kostum, Héðinsfjarðargöngum annars vegar og hins vegar Skarðsgöngum og Vaðlaheiðargöngum, er alveg ótvírætt seinni kostinum í vil.
Engu er líkara en að þráhyggjan „sameining sveitarfélaga“ hafi villt um fyrir Siglfirðingum og nágrönnum þeirra í þessu máli öllu saman en ýmsir kontóristar í félagsmálaráðuneytinu og sveitarstjórnarmenn í Eyjafirði eiga sér þær væntingar helstar til lífsins að sameina öll sveitarfélögin út með firðinum. Héðinsfjarðargöngin eru talin forsenda þess að þráhyggjan verði að veruleika.
Það sem er þó kannski mikilvægasta atriðið í grein Valgarðs er sú staðreynd að með því að gata fjöllin í Héðinsfirði og leggja þjóðveg um fjörðinn þveran glatar Héðinsfjörður sérstöðu sinni sem einangraður eyðifjörður. Ríkið ætlar verja ótrúlegum fjárhæðum til þess arna, jafnvel tíuþúsund milljónum króna eða um 140 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.
Um þessi ósköp er jafnvel þverpólitísk sátt á Alþingi. Þingmenn vinstrihreyfingarinnar sem kennir sig við grænt framboð styðja málið og láta sér fátt um finnast þótt „ósnortin náttúra“ Héðinsfjarðar og Hvanndala verði fyrir bí.