Samkvæmt nýju lagafrumvarpi frá samgönguráðherra mega menn ekki lengur hittast og kjafta yfir kaffibolla nema á lögheimili hvers annars. Kaffihús, barir, götuhorn og aðrir slíkir staðir þar sem menn hittast og leggja á ráðin um fíkniefnasölu og alls kyns önnur ódæði verða ekki lengur löglegir samkomustaðir. Stjórnvöld segja að lögreglan verði að geta greint með einföldum hætti hverja hún er að hlera. Þegar er búið að fjarlægja bekkina á Austurvelli í þessu skyni. Húseigendur beri ábyrgð á því sem sagt er á heimilum og því verði allt kjaftæði að fara fram á heimilum. Jafnframt hafa samgöngu-, umhverfis- og heilbrigðisráðherra lagt fram frumvarp sem bannar mönnum að senda flöskuskeyti. Í greinargerð með frumvarpinu segir að lögreglan eigi mjög bágt með að fylgjast með slíkum skeytum sem fari um heimshöfin eins hver önnur reköld undan straumum, veðri og vindum. Heilbrigðisráðuneytið telur að þessi samskiptamáti leiði til aukinnar áfengisneyslu því menn klári fyrr en ella úr brennivínsflösku sem nota á undir slík skeyti. Umhverfisráðuneytið hvetur menn eindregið til að skila flöskum til endurvinnslu.
Stríð stjórnvalda gegn fíkniefnum, öðrum en þau selja sjálf, tekur á sig ýmsar myndir. Flestar þeirra eru ljótar. Samgönguráðherra hefur að vísu ekki enn lagt fram frumvörpin sem greinir frá hér að ofan en hann er á ferðinni með annað frumvarp engu síðra. Nefnist frumvarpið frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Með því vill samgönguráðherrann banna mönnum að tala saman í síma nema símarnir séu skráðir á eiganda eða öllu heldur mega símafyrirtæki ekki lengur selja mönnum aðgang að fjarskiptanetum sínum án þess að vita hver heldur um tólið. Hljómar kannski saklaust en í raun er þetta krafa um að ekki sé lengur hægt að tala í síma á Íslandi án þess að það sé skráð hverjir voru að tala saman. Grein frumvarpsins sem snýr að þessu orðast svo:
Fjarskiptafyrirtækjum er skylt að halda skrá yfir notendur sem úthlutað hefur verið númerum í fastlínu- og farsímakerfum í samræmi við reglur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur þar um. Við kaup símakorts skal kaupandi framvísa skilríkjum. |
Í umsögn um greinina sem fylgir frumvarpinu segir svo:
Breytingin, sem er nýmæli, miðar að því að gera fjarskiptafyrirtækjum skylt að halda skrá yfir alla „notendur“ símanúmera í símkerfum sínum, bæði í fastlínu og farsímum, þ.m.t. svokölluð farsímafrelsi. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að svokölluð frelsiskort í farsíma séu seld án þess að skráning fari fram á kaupanda eða væntanlegum notanda þeirra. Kort þessi má kaupa víða, þar á meðal á bensínstöðvum og í söluturnum. Umrædd kort hafa númer sem ekki eru tengjanleg neinum notanda, nema notandinn óski sérstaklega eftir því. Þetta veldur vandkvæðum í rannsóknum lögreglu þegar tækin eru notuð til refsilagabrota. Má hér nefna ónæði og hótanir settar fram í tali eða með SMS-skilaboðum. Með óskráðum númerum er því mögulegt að stunda refsiverða hegðun í skjóli nafnleyndar. Í sumum löndum Evrópu mun þessi háttur ekki vera heimill, t.d. í Noregi. Þá eru vandkvæði þessu samfara tengd hlustun lögreglu á símtölum, einkum í tengslum við rannsóknir fíkniefnabrota. Reynslan hefur sýnt að hinir grunuðu nota iðulega óskráð frelsisnúmer og skipta reglulega um símtæki og símanúmer til að gera lögreglu erfiðara með að hlusta síma þeirra. Óskráð númer eru því skálkaskjól slíkra aðila. Með þessari breytingu er reynt að sporna við þessu. |
Því er ekki hægt að neita að menn nota óskráða farsíma bæði til að valda öðrum ónæði með nafnlausum upphringingum og skilaboðum og einnig til að skipuleggja refsiverða háttsemi. En þetta á líka við um bréfsefni og skriffæri og engum hefur dottið í hug, eða að minnsta kosti ekki látið það eftir sér, að menn þurfi að skrá sig fyrir kaupum á slíkum hlutum til að eiga í samskiptum við aðra. Liggur eitthvað fyrir um að bann við óskráðum símum dragi úr sölu og neyslu ólöglegra fíkniefna? Var ekki allt vaðandi í ólöglegum fíkniefnum fyrir daga óskráðra farsíma? Við getum ekki sífellt fórnað meiru af einkalífi okkar til að þóknast þeim sem vilja beita öllum ráðum gegn vissum tegundum fíkniefna. Menn leggja mikið á sig til að eignast einkalíf og næði fyrir öðrum en ríkið er sífellt að skerða þessi gæði með lögregluaðgerðum sem flestar eru þáttur í vonlítilli baráttu gegn sölu og neyslu ólöglegra fíkniefna. Fangar hafa líklega minnst einkalíf allra manna, geta lítið setið og kjaftað í óskráða síma, en engu að síður er neysla ólöglegra fíkniefna hvergi meiri en einmitt í fangelsum.
Vefþjóðviljinn verður svo að viðurkenna að hann skilur ekki heldur þau rök samgönguráðherra að Íslendingar verði að banna óskráða síma vegna þess að Norðmenn geri það. Var ekki Osló orðin heróínhöfuðstaður Vesturlanda fyrir ekki svo löngu? Væri ekki nær að kalla þetta mótrök gegn frumvarpinu á meðan ekkert annað kjöt er á beinunum?
Samgönguráðherra vill einnig að ríkið geti kallað eftir því hvar menn hafi vafrað um á lýðnetinu undanfarið ár. Frumvarpið hans skyldar netþjónustufyrirtæki að skrá og varðveita í eitt ár hvert hver notandi fer á netinu. Hvaða vefsíður hann heimsótti, hvaða gögnum hann hlóð inn á tölvuna sína, hve lengi hann var á hverri síðu, hve oft og hversu miklum gögnum hann hlóð inn tölvuna sína. Nei, þetta er ekki grín því svona hljómar sú grein frumvarpsins sem lýtur að þessari ótrúlegustu tilraun til persónunjósna á Íslandi á síðari árum:
[S]kulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í eitt ár. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notendanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, tímasetningar þeirra, tímalengd, hverjum var tengst, magn gagnaflutnings hvort sem er til eða frá viðkomandi notanda. |
Það er staðreynd að einkalíf búa menn sér til sjálfir með því að loka að sér með ýmsum hætti. Ríkið færir mönnum ekki næði – en getur gert það að engu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra er um það bil að sanna þessa staðhæfingu.
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars.