Þegar Framsóknarmenn kynntu það kosningaloforð sitt vorið 2003 að hækka þau lán er ríkið veitir til húsnæðiskaupa studdu þeir það þeim rökum að landsmenn væru með yfir 60 milljarða króna á yfirdrætti í bönkum sem þeir gætu greitt upp með því að bæta við sig lánum frá Íbúðalánasjóði! Þetta var ekki í fyrsta eða síðasta sinn sem tilvera Íbúðalánasjóðs var réttlætt með því að benda á vondu viðskiptabankana með háu vextina.
Í gær lækkaði KB banki hins vegar vexti á sambærilegum lánum og Íbúðalánasjóður ríkisins veitir niður fyrir vexti sjóðsins. Raunar veitir bankinn bæði lán fyrir hærri upphæð og lánar fyrir hærra hlutfalli af verðmæti eignar en Íbúðalánasjóður svo að hann veitir betri kjör að öllu leyti en sjóðurinn.Viðskiptabakarnir hafa hver með sínum hætti verið að fikra sig í þessa átt að undanförnu, fjölgað lánakostum og lækkað vexti til húsnæðiskaupa jafnt og þétt. Þessi þróun hefur ekki síst átt sér stað eftir að einkavæðingu Landsbanka og Búnaðarbanka lauk loks. Í þessu ljósi vakna tvær spurningar. Hvenær verður Íbúðalánasjóður einkavæddur? Hvers vegna voru ríkisbankarnir ekki einkavæddir fyrr?
Íbúðalánasjóður og forverar hans hafa fram að þessu fleytt rjómann ofan af lánsviðskiptum við einstaklinga. Þetta hefur sjóðurinn gert í krafti ríkisábyrgðar. Hann hefur nýtt sér þessa ríkisábyrg til að hlamma sér á fyrsta veðrétt nær alls íbúðarhúsnæðis í landinu. Ef það er pólitískur vilji til þess í landinu að ríkið aðstoði menn við að eignast íbúðarhúsnæði eru til einfaldari og ódýrari leiðir til þess en að ríkið reki lánastofnun. Rekstur Íbúðalánasjóðs er bæði ósanngjarn gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum og það eru til betri leiðir til að koma til móts við þá sem ríkið telur að þurfi aðstoð við að eignast íbúðarhúsnæði.
Síðari spurningunni er rétt að beina til nokkurra stjórnmálaflokka, lífs og liðinna. Alþýðuflokkur Jóns Baldvins Hannibalssonar kom í veg fyrir einkavæðingu ríkisbankanna á stjórnarárum sínum, árin 1991 til 1995. Til þess hafði hann stuðning stjórnarandstöðuflokkanna Alþýðubandalags, Kvennalista og Framsóknarflokks, sem allir voru andvígir því að stjórnmálamenn losuðu um tök sín á bönkunum. Framsóknarflokkurinn þurfti svo allmörg ár í ríkisstjórn til að sannfærast um ágæti þess að stjórnmálamenn hættu að reka þessi fyrirtæki. Hann var síst hvattur til þess af Samfylkingu og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að bregða áfram fæti fyrir einkavæðingu og aukna samkeppni bankanna.