Laugardagur 8. júlí 2000

190. tbl. 4. árg.

Peter Bauer
Peter Bauer

Peter Bauer lávarður og prófessor emeritus í hagfræði við London School of Economics hefur sent frá sér nýja bók, From Subsistence to Exchange, sem er safn ritgerða um þróunarlöndin og efnahagslega aðstoð Vesturlanda við þau. Bauer hefur áður ritað nokkrar bækur um þessi mál og kom reyndar til Íslands á vegum Félags frjálshyggjumanna árið 1984 og flutti erindi um þessi mál. Í þeim fyrirlestri sagði hann m.a.: „Þeir sem halda því fram að gjafafé frá útlöndum sé nauðsynlegt, til þess að framfarir geti orðið með fátækum þjóðum, ruglast á orsök og afleiðingu. Það eru framfarir í atvinnumálum, sem geta af sér eignir og peninga. Það eru ekki eignir og peningar, sem geta af sér framfarir í atvinnumálum.“ Bauer bætti svo við: „Það ræður engum úrslitum um framþróun í atvinnumálum, hversu mikið fé er tiltækt í upphafi. Væri svo, væri illskiljanlegt hvers vegna fjöldi fólks hefur brotist úr sárustu fátækt í bjargálnir á tiltölulega skömmum tíma, til dæmis innflytjendur í Norður-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Það varðar miklu meira, hvernig fé er notað en hversu mikið það er.“ Sagt var frá fyrirlestrinum í tímaritinu Frelsinu 1.tbl. 1985.

Ef marka má kynningu á nýju bók lávarðarins hefur hann ekki skipt um skoðun frá því hann kom hingað fyrir 16 árum. Í kynningu á bókinni í CATO Policy Report segir: „Bauer færir rök fyrir því að rannsóknir á þróunarlöndunum líði fyrir það að menn líti almennt framhjá gildi verslunar í fátæku löndunum þótt menn séu almennt sammála um að verslun hafi gegnt lykilhlutverki í velgengni Vesturlanda.“ Og áfram segir: „Erlend aðstoð hefur oft öfug áhrif á efnahagslífið og nær ekki til fólks í afskektum héruðum að, mati Bauers. Hann getur þess að aðstoð Bandaríkjanna við þróunarlönd hafi vaxið úr nokkur hundruð milljónum dollarar á ári á fimmta áratugnum í yfir 50 milljarða dollara á ári á tíunda áratugnum. Þeir sem njóti góðs af aðstoðinni séu ríkisstjórnir sem oft séu andsnúnar  Bandaríkjunum. Til dæmis um það eru Ghana í tíð Nkrumah, Tansanía Nyereres og Eþíópía Mengistus. Bauer heldur því fram að þróunaraðstoð sé lækning sem sé verri en sjúkdómurinn. Svo vitnað sé beint í Bauer: „Erlend efnahagsaðstoð er hvorki nauðsynleg né nægjanleg til að bæta efnahag hinna svokölluðu þriðja heims ríkja. Slík aðstoð er líklegri til að hægja á efnahagsbata en flýta honum.“ Hann leiðir einnig rök að því að mannfjöldasprengingin sé vandamál sem hafi verið „spunnin upp“ af menntamönnum, pólitíkusum og starfsmönnum alþjóðlegra hjálparstofnana. Hann segir enga fylgni milli efnahagslegrar velgengni og þéttbýli eða strjálbýli og nefnir dæmi um velmegandi þjóðir í miklu þéttbýli og fátækar í strjálbýli. Efnahagsleg frammistaða er háð hegðun fólks en ekki fjölda þess, segir Bauer. Hann segir þetta spurningu um hvort foreldrar eða embættismenn eigi að ákveða hversu mörg börn menn eignast.“