Fimmtudagur 5. ágúst 2004

218. tbl. 8. árg.

R

Skógar í Breiðholtinu standa vissulega undir nafni.

ætt var við Trausta Jónsson veðurfræðing í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í síðustu viku um veður á Íslandi sem mörgum þykir hafa breyst til batnaðar á síðustu árum. Trausti tók undir þetta viðhorf fyrir hönd þeirra sem hafa „venjulegan smekk fyrir veðri“ enda hafi síðustu tvö ár verið óvenju hlý. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur meðalhiti í Reykjavík síðustu 28 mánuði verið yfir meðallagi. Trausti nefndi einnig að það sé farið að muna ansi mikið um allan trjágróðurinn í höfuðborginni og fleiri þéttbýlisstöðum því gróðurinn dragi mjög úr vindi. Þessi þróun sé hins vegar ekki merkjanleg á ýmsum öðrum stöðum þar sem þessara áhrifa af trjágróðri gæti ekki.

Ekki er gott að áætla hve stór hluti trjágróðurs í Reykjavik er í görðum við heimili manna en sá hluti er vafalaust verulegur. Hús í sumum hverfum borgarinnar sjást vart lengur svo hár og þéttur er þessi einkaskógur orðinn. Þannig er til dæmis neðsti hluti Seljahverfisins orðinn nær samfelld gróðurvin eins og nafn þess hluta hverfisins gefur til kynna. Úr fjarlægt sést rétt glitta í einstaka þak og mæni. Fyrir þrjátíu árum þegar þarna var að rísa byggð hefur án efa einhver hugsað og jafnvel sagt að menn væru vart með réttu ráði að byggja svo langt upp á heiði, rétt eins og menn tala nú af takmarkaðri virðingu um byggðina í Grafarholti og fleiri nýjum hverfum sem eru ekki í göngufæri við barina í 101. Enn ofar í Seljahverfinu, þar sem byggð er innan við tuttugu ára gömul, er nú svo komið að menn eru farnir að grisja skóginn. Aspir eru orðnar of stórar fyrir eigendur húsagarða og runnar úr sér sprottnir.

Sömu sögu er að segja af ýmsum sumarbústaðalöndum. Eigendur sumarbústaða eru undantekningarlítið afar öflugir skógarbændur enda getur skjólið af trjánum gjörbreytt skilyrðum til annarrar ræktunar og útivistar við bústaðina. Á stundum er jafnvel vissara að vera tengdur við svonefnt „Global Positioning System“, sem Donald nokkur Rumsfeld er í forsvari fyrir, ef menn vilja rata í kaffi til vina og ættingja í sumum þessara skógarkofa. Ýmis félög vítt og breitt um landið gera sér það svo að leik að planta trjám. Það vantar því ekki einstaklingsframtakið í skógræktinni.

Þrátt fyrir þetta veglega einstaklingsframtak hefur ríkið verið að færa sig upp á skaftið í þessari grein að undanförnu. Á fjárlögum þessa árs, undir útgjöldum landbúnaðarráðuneytis, er liðurinn „Landshlutabundin skógrækt“ upp á 325,5 milljónir króna eða um 1.100 krónur á hvern landsmann. Þessi skógrækt er raunar ekki bundin við einn landshluta heldur er hún stundum í þeim öllum: Suðurlandsskógar 98,7 mkr., Vesturlandsskógar 57,8 mkr., Skjólskógar, Vestfjörðum 43,2 mkr., Norðurlandsskógar 96,6 mkr., og Austurlandsskógar 29,2 mkr. Að auki greiðir hvert mannsbarn 340 krónur á ári til „Héraðsskóga“ eða 99 milljónir og 830 krónur til Skógræktar ríkisins eða samtals 242,9 milljónir að ógleymdum 25 milljónum til Skógræktarfélags Íslands og 4,2 milljónum í „landgræðslu og skógræktaráætlanir“.

Samtals eru þetta tæpar 700 milljónir króna eða tæpar 10 þúsund krónur á fjögurra manna fjölskyldu. Þessi fjölskylda hefur kannski skika til ræktunar við húsið sitt eða sumarbústaðinn, ef ekki hvort tveggja. Það sést auðvitað að ríkið eyðir þessum 10 þúsund krónum í skógrækt og mörgum þykir það án efa alveg frábært, ekki síst þeim sem fá greitt fyrir að planta fyrir ríkið. En það sjást aftur á móti engin merki um þau tré sem fjölskyldan, sem féð var tekið af, plantaði ekki við sumarbústaðinn sinn.