Þriðjudagur 20. maí 2003

140. tbl. 7. árg.

Geir H. Haarde er sá fjármálaráðherra í sögu Íslands sem hefur aukið útgjöld ríkisins mest, hvort sem talið er í krónum eða hlutföllum. Segja má með fullri sanngirni að ríkisútgjöldin hafi aukist á ævintýralegan hátt undir hans stjórn í fjármálaráðuneytinu. Tugir milljarða á hverju ári renna nú úr sjóðum ríkisins umfram það sem var þegar Geir tók við sem fjármálaráðherra. Árið 1997 voru ríkisútgjöld 175 milljarðar króna (á verðlagi ársins 2001) en stefna í yfir 250 milljarða króna á þessu ári.

Hluta af þessari miklu hækkun má skýra með miklum launahækkunum meðal opinberra starfsmanna síðustu árin. Aðrar skýringar eru til dæmis mál nr. 623 – Geir H. Haarde gegn almenningi – betur þekkt sem lög frá Alþingi um fæðingar- og foreldraorlof. Þessi lög kosta ríkissjóð 5 milljarða á ári sem er langt umfram það sem fjármálaráðherrann sór og sárt við lagði er frumvarp til laganna var keyrt á mettíma í gegnum Alþingi vorið 2000. Lög þessi eiga ekki aðeins þátt í því að met í aukningu ríkisútgjalda var slegið heldur eru þau met í sjálfu sér að því leyti að aldrei áður í Íslandssögunni hafa verið greiddar jafnháar félagslegar bætur til jafn auðugra einstaklinga og greiddar eru frá Tryggingastofnun ríkisins um þessar mundir sem styrkir til manna í foreldraorlofi.

En ef Geir verður fjármálaráðherra áfram mun hann að öllum líkindum eiga þess kost að slá fleiri met sem meiri akkur er í fyrir skattgreiðendur. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lofuðu verulegum skattalækkunum fyrir kosningar. Takist að hrinda einhverju meðaltali af þessum skattalækkunarloforðum flokkanna í framkvæmd á næstu fjórum árum verður líklega um met í skattalækkunum að ræða. Æskilegt væri að því fylgdi met í lækkun ríkisútgjalda.