Það má finna margt hnýsilegt í tímaritum og það eins þó nokkuð líði frá útkomu þeirra. Fyrir nokkrum árum kom út sérstakt jólahefti tímaritsins Vísbendingar og var þar meðal annars rætt við Jónas Kristjánsson, fyrrverandi forstöðumann þeirrar stofnunar íslenskrar sem margir telja hvað virðulegasta, Árnastofnunar. Í viðtalinu talaði Jónas vitanlega talsvert um stofnunina sem hann stýrði og sjálfsagt kemur ýmsum á óvart það sem hann hafði að segja um hana, opinberan rekstur og einkarekstur. Jónas sagði frá erindi sem hann hafði haldið á fundi og lýsti því með þessum orðum:
Ég rakti þar hvernig ég sem ungur maður hefði verið vinstra megin í skoðunum, alinn upp í Framsóknarandrúmslofti Suður-Þingeyinga. Þar af leiðandi vildi ég víðtækan opinberan rekstur á þeim sviðum þar sem augljósir kostir samvinnurekstrarins fengju ekki notið sín. Skoðanir mínar hefðu hins vegar mjög breyst í áranna rás. Nú væri mér að vísu vel kunnugt það lögmál að menn hneigðust í afturhaldsátt með aldrinum, en í þessu tilfelli væri mér nær að halda að aldarfjórðungsreynsla mín sem embættismanns hefði haft meiri áhrif á skoðanir mínar en aldurinn. Niðurstaða mín væri sú, að ríkisrekstur einfaldlega „fungeraði“ ekki eins vel og einkareksturinn. … |
Tilfinning mín, og reynsla víða að, lögðust á eitt um að sannfæra mig um að þegar hið opinbera, ríki og sveitarfélög, fara með rekstur stofnana, hafi þær stofnanir tilhneigingu til að falla í fastar skorður og starfsemin að sofna út af í værð. Nú er ég alls ekki rétti maðurinn til að gagnrýna þennan sofandahátt, ég var áreiðanlega ekki góður forstöðumaður, enda valinn sem fræðimaður til að veita minni stofnun forstöðu, án nokkurrar kröfu um fyrir fram þekkingu á stjórnsýslu. Ég geri mér líka grein fyrir að ekki má heldur keyra fræðilega útgáfustarfsemi of hratt; menn þurfa að hafa tíma og næði til að vanda sig. En þetta vill ganga miklu hægar en æskilegt er. Einhvern tíma á árunum varð mér að orði að réttast væri að einkavæða Árnastofnun ef einhver fengist til að eiga hana! |
Síðar í viðtalinu bætir Jónas því við að einkavæðing Árnastofnunar hefði getað orðið til þess að „þar yrði tekin upp markmiðssetning og verklag með þeim hætti að tryggði sem skjótastan og mestan árangur“ og kemur þetta álit hans eflaust ýmsum á óvart sem ekki höfðu búist við því að hann yrði með fyrstu mönnum til að stinga upp á einkavæðingu Árnastofnunar. Hitt er sjálfsagt að játa að Jónas hefur ekki alveg gengið frjálslyndi og einkarekstri á hönd og ýmsar eru þær skoðanir hans sem hitta nú kannski ekki tundur og glæðast í loga í sál Vefþjóðviljans. Það má hins vegar liggja milli hluta hér og nú. Þau orð Jónasar um ríkisrekstur, einkarekstur og Árnastofnun sem rakin voru hér að ofan eru jafn athyglisverð fyrir það. Enginn skyldi þó láta sér detta í hug að þau hafi nokkur áhrif á hefðbundna vinstri sinnaða fræðimenn sem seint munu ljá máls á einkarekstri stofnunar eins og Árnastofnunar. Erfitt mun þó ýmsum þeirra þykja að afgreiða Jónas Kristjánsson sem einhvern apakött sem ekkert viti en gaman er í því sambandi að rifja upp að á sínum tíma lýsti Hermann Pálsson Jónasi svo sjötugum:
Um undanfarna áratugi hefir Jónas stýrt göfugasta fræðasetri íslenzkrar þjóðar af miklum skörungsskap og vizku, enda lætur hann sér aldrei úr geði ganga áminningu þá, er Aristóteles kenndi lærisveini sínum forðum. Hvern þann dag, er þrumir yfir landi og þjóð, glímir Jónas við dýpstu gátur íslenzkrar menningar, ræður torskildar bækur og knýr tölvu sína í jötunmóði, hvenær sem honum gefst tóm frá stjórn til slíkrar sýslu. Undir leiðsögu hans hefir Árnastofnun orðið fræg um alla Mannheima og jafnvel víðar, enda hefir hann ávallt gætt þess, að hafa hina beztu menn og spökustu við sína ráðagerð… |