Helgarsprokið 10. ágúst 2003

222. tbl. 7. árg.

Íhugum flestra sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum hefur staða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur verið harla óskýr frá því í kosningunum í vor. Í kosningabaráttunni kom Ingibjörg fram sem sérstakur aðaltalsmaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherraefni, henni var teflt fram á kosningafundum í öllum kjördæmum og jafnframt í öllum helstu umræðuþáttum í ljósvakamiðlum. Ef miðað var við kosningaauglýsingar Samfylkingarinnar mátti ætla, að Ingibjörg væri því sem næst ein í framboði til Alþingis og aðrir frambjóðendur flokksins gegndu í besta falli hlutverki einhvers konar statista.

„Ekki er ótrúlegt að Samfylkingarmenn muni nokkuð skiptast á skoðunum um þetta efni á næstu vikum, en það verður væntanlega frekar í anda samræðustjórnmála en átakastjórnmála eins og gefur að skilja.“

Daginn eftir kjördag breyttist hins vegar myndin verulega. Þá kom fram á sjónarsviðið Össur nokkur Skarphéðinsson, sem með eftirminnilegum hætti undirstrikaði í hverju fjölmiðlaviðtalinu á fætur öðru að hann væri formaður flokksins og færi með stjórnarmyndunarumboð fyrir hans hönd og væri þar að auki maðurinn sem fært hefði Samfylkingunni fylgi yfir 30% kjósenda strax í nóvember á síðasta ári. Síðan þessi straumhvörf urðu hefur heldur lítið farið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu á opinberum vettvangi, nema hvað fjölmiðlar sýndu því nokkurn áhuga þegar hún skrapp í þrjá daga til Lundúna í júní og var meðal 500 áheyrenda á ráðstefnu evrópskra vinstri flokka.

Reyndar beindist athyglin dálítið að Ingibjörgu Sólrúnu nú fyrir skemmstu þegar rifjað var upp að hún hefði haft milligöngu um að ráða Þórólf Árnason í starf borgarstjóra í Reykjavík í kringum síðustu áramót. Töldu ýmsir samstarfsmenn Ingibjargar innan R-listans að hún hefði sýnt þeim lítinn trúnað í sambandi við þá ráðningu.

Með öðrum orðum hefur lítið farið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu undanfarna mánuði og svo virðist sem hún hyggist sinna starfi sínu sem formaður framtíðarstefnuhóps Samfylkingarinnar að mestu í kyrrþey. Fyrir hinn almenna áhugamann um stjórnmál er því staðan nokkuð óskýr, enda virðist sem aðaltalsmaðurinn og forsætisráðherraefnið frá því í vor sé orðinn einhvers konar aukapersóna á sviði stjórnmálanna.

Ekki virðast þó allir þeirrar skoðunar að staða Ingibjargar sé óskýr. Í blaðaviðtali nú um helgina hafnar varaformaður Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, slíkri túlkun og telur þvert á móti að enginn þurfi að velkjast í vafa í stöðu Ingibjargar. Hún sé varaþingmaður fyrir flokkinn í Reykjavík eins og hún hafi stefnt að þegar hún gaf kost á sér fyrir kosningarnar í vor og muni eins og aðrir varaþingmenn fá tækifæri til að koma inn á þing endrum og sinnum, a.m.k. eitthvað á kjörtímabilinu. Þá sé hún líka borgarfulltrúi í Reykjavík og geti í krafti þessara trúnaðarstarfa unnið að hagsmunamálum Reykjavíkurborgar. Margrét bætir svo við að enn standi boð hennar sjálfrar frá því í vor um að víkja fyrir Ingibjörgu úr sæti varaformanns flokksins en segir jafnframt að Ingibjörg hafi fram að þessu sýnt þeirri vegtyllu lítinn áhuga.

Ef marka má þessi ummæli Margrétar má Ingibjörg Sólrún sem sagt vel við sinn hlut una. Forvitnilegt verður að sjá hvort áhugamenn um frama Ingibjargar Sólrúnar eru sama sinnis, en eins og menn muna áttu sér stað talsverð blaðaskrif strax í kjölfar kosninganna þar sem ýmsir nafnkunnir stuðningsmenn Samfylkingarinnar lýstu því yfir að óhjákvæmilegt væri að hún tæki við forystu í flokknum á landsfundi í haust. Ekki er ótrúlegt að Samfylkingarmenn muni nokkuð skiptast á skoðunum um þetta efni á næstu vikum, en það verður væntanlega frekar í anda samræðustjórnmála en átakastjórnmála eins og gefur að skilja.