Óráðsía hefur einkennt fjármál sveitarfélaga á síðustu árum. Sveitarstjórnarmenn heyra sjaldan útgjaldahugmyndir án þess að þykja þeir verða að hrinda þeim í framkvæmd. Allt á að gera fyrir alla og alls staðar finnast atkvæði sem hægt er að kaupa fyrir skattfé. Þegar niðurskurðartillögur heyrast í sveitarstjórnum, eins og til að mynda nokkrar tillögur sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur við afgreiðslu fjárhagsáætlunar, fá tillöguflytjendur það í hausinn að þá skorti „heildstæða stefnumörkun og beinskeytta sýn til framtíðar“, eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri orðaði það í fyrradag. Þessi sami borgarstjóri hefur það í sinni „heildstæðu stefnumörkun“ að hækka skatta hvenær sem færi gefst, meðal annars með því að stela tekjuskattslækkun ríkisins af skattgreiðendum með hækkun útsvars. Og framtíðarsýnin felst í því að margfalda skuldir borgarinnar á örfáum árum.
Þessi óráðsía sveitarfélaganna hefur kostað skattgreiðendur umtalsverð aukaleg útgjöld á síðustu árum, því útsvarshlutfallið hækkar sífellt. Meðalútsvar sveitarfélaga er 12,79% í ár og mun hækka í 12,80% á næsta ári. Ástæða þess að það hækkar aðeins um 0,01% að þessu sinni er að sveitarfélögin eru að komast að efri mörkum þess sem heimilt er samkvæmt lögum og að þau hafa hækkað útsvarið verulega á síðustu árum. Má sem dæmi nefna að árið 1997 var meðalútsvarið 11,57% og hefur því hækkað um meira en 1,2 prósentustig á aðeins fimm árum. Efri mörk útsvarsins eru 13,03% og neðri mörkin 11,24%. Þegar tekið er mið af staðfestu sveitarstjórnarmanna þarf ekki að koma á óvart að einungis 4 sveitarfélög innheimta lágmarksútsvar en 64 hámarksútsvar. Samtals eru sveitarfélögin 105 sem þýðir að yfir 60% sveitarfélaga reita allt það fé af skattgreiðendum sínum sem heimilt er samkvæmt lögum. Mörg önnur eru býsna nálægt þessu hámarki, en örfá eru við neðri mörkin.