Föstudagur 8. nóvember 2002

312. tbl. 6. árg.

Ýmsir telja að öll mál megi leysa með auknum lögum og reglum. Til dæmis telja Samfylkingarmenn að setja þurfi ítarlegar reglur um fjármál flokkanna en því miður geta þeir ekki farið eftir þeim sjálfir. Fyrir síðustu kosningar auglýsti „ungt fólk í Samfylkingunni“ í blöðum. Þar voru þröngir hagsmunir innlendra grænmetisframleiðenda varðir í nafni unga fólksins en aðrir greiddu í raun fyrir auglýsinguna. Þetta er ein af mörgum leiðum sem standa mun opin þegar sett hafa verið sérstök lög um fjármál flokkanna.

Í Morgunblaðinu í morgun mátti einnig sjá hvað gerist ef hömlur verða settar á beina styrki fyrirtækja, hasgmunasamtaka og einstaklinga til stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Í blaðinu gaf að líta heilsíðuauglýsingu frá Hagkaupum þar sem tillögu frá varaþingmanni Framsóknarflokksins um að taka upp nýja mismunun í skattkerfinu er fagnað ógurlega. Jafnframt bjóða Hagkaup upp á afslátt næstu daga til að fagna þessari nýju tillögu um mismunun og auknar flækjur og kostnað í skattkerfinu.

Heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu kostar nokkur hundruð þúsund krónur. Til að auka áhrif auglýsingarinnar hefur verslunin svo ákveðið að veita afslátt af tilteknum vörum næstu daga. Ekki er gott að meta hvað þetta ævintýri kostar verslunina, ef nokkuð, því vera kann að auglýsingin beri tilætluð áhrif og viðskiptin aukist til muna.

Var verslunin að styðja varaþingmanninn fjárhagslega með þessari auglýsingu? Og þá hversu mikið? Því er erfitt ef ekki vonlaust að svara. Stuðningurinn var hvorki beinn né í beinhörðum peningum en að öllum líkindum mikils virði fyrir lítt þekktan varaþingmann. Kannski er eina leiðin til að lýsa stuðningi af þessu tagi í einu orði: ómetanlegur. Ekki er gott að sjá hvernig lög um fjárreiður stjórnmálaflokka gætu girt fyrir stuðning af þessu tagi án þess að skerða tjáningarfrelsi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja.