Þriðjudagur 1. október 2002

274. tbl. 6. árg.

Íauglýsingum sem kosta félagsmenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur mörg hundruð þúsund krónur auglýsir VR að félagsmenn sínir geti nýtt sér svonefndar „orlofsávísanir“ félagsins sem gilda til vöruúttektar hjá átta fyrirtækjum sem félagið telur hæfa fólki í orlofi. Í öðrum auglýsingum sem kosta félagsmenn milljónir króna er þeim sagt að fara í jólabuxurnar og æfa bros við spegilinn á klóinu áður en launamál eru borin upp við vinnuveitanda.

Er ekki bara gott að félagsmenn fái orlofsávísanir, spyr nú kannski einhver, og geti þar með veitt sér eitthvað í fríinu. Jú vissulega er það gott að því fé sem VR hefur hirt af launafólki sé skilað aftur. Það eru jú sömu félagsmenn VR sem fá þessar ávísanir og vinna fyrir þeim. Í stað þess að þeir fái einfaldlega greitt fyrir vinnu sína hirðir VR hluta launanna í orlofssjóðsgjald (og raunar ýmis önnur gjöld). Þetta orlofssjóðsgjald notar VR svo til að byggja sumarbústaði, reka tjaldvagnaleigu og gefa út umræddar orlofsávísanir. Að því ógleymdu að reka glæsiskrifstofur undir starfsemi félagsins.

Þetta ólíkinda fyrirkomulag hlýtur að kæta þá félagsmenn VR sem eiga sinn eigin sumarbústað eða tjaldvagn eða kæra sig hvorki um að nota sumarbústaði né tjaldvagna. Og nú þegar VR sendir þeim orlofsávísun, vegna þess að félagið fær svo miklar tekjur af orlofssjóðsgjaldinu að það flóir út úr sjóðnum og það hefur ekki undan að eyða fénu í sumarbústaði og tjaldvagna, er fénu ekki skilað í upprunalegu horfi til réttra eigenda sinna heldur eru gefnir út einhverjir Matador peningar sem aðeins gilda á örfáum stöðum.

VR er vissulega ekki eina stéttarfélag landsins sem hagar sér með þessum hætti. Flest þeirra féfletta félagsmenn sína með svipuðum aðferðum. VR er hins vegar það eina sem veltir félagsmönnum sínum upp úr ruglinu með auglýsingaherferð. Sem félagmennirnir sjálfir greiða að sjálfsögðu fyrir.