Kosningar eru nokkuð sem menn vilja ekki vera án. Í þeim ríkjum þar sem stjórnvöld hafa valist með annarri aðferð en almennum kosningum er ástand mála að jafnaði mun verra en þar sem kosið er og lífskjör fólks lakari, bæði hvað varðar réttindi þess og efnahag. Þess vegna er það einkennilegt að það eru einmitt kosningarnar sem almenningur í lýðræðisríkjunum þarf að óttast. Almenningur, sem jafnframt er skattgreiðendur, er í mestri hættu fyrir kosningar, hvort sem það eru sveitarstjórnarkosningar, alþingiskosningar, eða bara prófkosningar.
Alþingiskosningar nálgast nú óðum og prófkjörin eru skammt undan hjá ýmsum flokkum og í ýmsum kjördæmum. Óhætt er að segja að kosningaskjálfta sé þegar farið að gæta á Alþingi, því þingmenn eru farnir að potast áfram með hin og þessi mál sem þeir telja að kunni að verða þeim og flokkum þeirra til framdráttar í einstökum hópum þjóðfélagsins. Dæmi um þetta sérhagsmunadaður eru tvær fyrirspurnir frá varaþingmanni Samfylkingarinnar á Vestfjörðum, Sigríði Ragnarsdóttur. Sigríður er greinilega þeirrar skoðunar að nú þurfi hún að sýna kjósendum sínum að henni sé annt um sérstaka hagsmuni þeirrar byggðar sem hún er fulltrúi fyrir og kærir sig um leið kollótta þó að hagsmunir annarra byggða og annarra landsmanna séu fyrir borð bornir.
Fyrirspurnir Sigríðar eru sakleysislegar – á yfirborðinu að minnsta kosti. Í þeirri fyrri spyr hún samgönguráðherra um „menningartengda ferðaþjónustu“, sem er væntanlega andstæða þeirrar ómenningartengdu sem einkaaðilar stunda óstuddir, og í þeirri síðari spyr hún iðnaðarráðherra út í byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Spurningarnar bera með sér að þingmaðurinn vill endilega að ráðherrarnir beiti sér fyrir auknum útgjöldum í formi „áhættufjármagns til nýsköpunar- og þróunarstarfs“ á Vestfjörðum. Þær bera með sér að þingmaðurinn vill að opinbert sjóðakerfi atvinnulífsins verði aukið og að ríkið vinni sérstakt svæðisskipulag fyrir Vestfirði, rétt eins og enn vanti eitt slíkt. Þá bera spurningarnar með sér að þingmaðurinn vill að ráðherra eyði skattfé til að auka hina svo kölluðu menningartengdu ferðaþjónustu, sem er þá greinilega ekki arðbær að mati þingmannsins. Loks bera fyrirspurnirnar með sér að þingmaðurinn vill sérstaka framkvæmdaáætlun með tilheyrandi fjármögnun fyrir öll ósköpin.
Sambærilegar tillögur hafa oft komið fram á Alþingi frá þingmönnum sem þar eru fyrir einhvern skelfilegan misskilning og halda að þeir eigi að vera í sífellu að búa til einhver afbrigði af fimm ára áætlunum Sovétríkjanna heitinna. Þetta eru þingmenn sem oft segjast vera hlynntir frjálsum markaði, en eru í verki ævinlega stuðningsmenn ríkisafskipta. Þetta eru þingmenn sem láta stundum eins og þeir hafi hagsmuni allra í hávegum, en eru í reynd aðeins að hugsa um eigið skinn. Þetta eru þingmenn sem óskandi væri að yrðu ekki valdir til áframhaldandi þingsetu.