Sérhagsmunir eru eitt af viðfangsefnum þeirra sem fjalla um manninn, s.s. þeirra sem fást við hagfræði, stjórnmálafræði og félagsfræði. Þeir sem vinna að rannsóknum á þessum sviðum skoða gjarna hvaða afleiðingar sérhagsmunapot tiltekinna hópa hefur og reyna jafnvel að greina kostnaðinn af því fyrir aðra hópa, eða alla hópa samanlagt. Það getur oft og tíðum verið býsna flókið að komast til botns í slíkum vandamálum, því ekki liggur endilega í augum uppi hvort um sérhagsmunapot er að ræða, hvað þá hverjar afleiðingar þess séu. Stundum er potið þó afar augljóst og dylst varla nokkrum manni. Eitt slíkt pot gerði vart við sig í vikunni, en þá skaust kennari í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands fram á sjónarsviðið og fór fram á að ríkið byggi til fleiri störf fyrir stjórnmálafræðinga. Ríkið sér nú þegar alldrjúgum hópi stjórnmálafræðinga fyrir þægilegri innivinnu, iðulega skattfrjálsri í hlýju loftslagi, en það er ekki nóg að mati stjórnmálafræðikennarans. Hann óttast að sú tíð komi að markaður fyrir stjórnmálafræðinga mettist og mikilvægi kennslunnar minnki.
Til að koma í veg fyrir þetta leggur þessi kennari til að ríkið fjölgi sendiráðum sínum í Evrópu. Nú er ekki nóg að hafa reist sendiráð fyrir milljarða króna í Japan, Þýskalandi, Mósambik, Kína og á Suðurskautslandinu, svo fáeinar nýjar staðsetningar séu nefndar, heldur þarf sendiráð í hvert ríki Evrópusambandsins. Fyrir venjulegt fólk er þetta allt nokkuð öfugsnúið. Heimurinn er sagður hafa skroppið saman og hver maður er tengdur beint frá skrifborðinu sínu að svo að segja hverju einasta skrifborði veraldar. Menn flakka auðveldlega á milli landa ef eitthvert viðfangsefni krefst nánari samskipta. Þrátt fyrir þetta er því haldið fram að sendiráð hafi aldrei verið jafn áríðandi en einmitt nú.
Í ljósi annarrar kenningar sama kennara verður þessi kenning um fjölgun sendiráða enn athyglisverðari. Kennarinn, Baldur Þórhallsson, hefur nefnilega síðustu árin talað oft, mikið, ítrekað og látlaust – bæði innan kennslustofunnar og utan – um gífurlegt hlutfallslegt vægi smáríkja innan Evrópusambandsins. Ef til vill tengjast þessar tvær kenningar og sú um fjölgun sendiráðanna er jafnvel bara undirkenning hinnar. Líklega er nauðsynlegt til að smáríki hafi hlutfallslega meira vægi en stórt ríki, að smáríkið hafi jafn mörgum sendimönnum á að skipa og stóra ríkið. Þannig getur smáríkið látist vera stórt og sótt hlutfallslega aukin áhrif í krafti ofvirkrar utanríkisþjónustu. Ókosturinn yrði að vísu sá að smáríkið yrði fljótt rúið inn að skinni, en af og til tækist því að hafa pínulítil áhrif á einhver mál sem snertu það með einhverjum hætti. Og fyrir þá sem telja að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé lífið sjálft, þá er auðvitað skárra að lauma landinu inn bakdyramegin en að þurfa að horfa upp á það áfram að landsmenn kæri sig ekkert um aðild.