Föstudagur 8. mars 2002

67. tbl. 6. árg.

Í þeirri skemmtilegu kvikmynd, The naked gun 2½, er sýnt frá móttöku í Hvíta húsinu þar sem forseti Bandaríkjanna heiðrar hinn óvenjulega lögregluforingja, Frank Drebin, fyrir að hafa drepið þúsundasta eiturlyfjasalann. Í þakkarræðu sinni getur Drebin þess að hann hafi að vísu aðeins bakkað yfir þá tvo seinustu en til allrar hamingju hafi þeir reynst vera eiturlyfjasalar. Ef svo ótrúlega vel hefði ekki hist á, hefði lögregluforinginn orðið skúrkur í stað þess að verða þjóðhetja. Það skellur sem sagt oft hurð nærri hælum.

DV  birtir látlausar „fréttir“ af fyrri fréttum sínum og hve þær hafi vakið „mikla athygli“.

Það eru til aðrir menn en Frank Drebin sem geta sagt svipaða sögu. Einn af þeim er fyrrverandi starfsmaður Landssíma Íslands, Halldór Örn Egilsson, sem hástemmdir blaðrarar hafa reynt að útmála sem þjóðhetju undanfarna daga fyrir vægast sagt vafasamt hátterni. Þjóðhetja þessi vann það sér til frægðar að fara í erindum Reynis Traustasonar starfsmanns DV ehf. inn í bókhaldskerfi vinnuveitanda síns, finna þar upplýsingar og koma þeim til þessa Reynis sem svo birti þær í blaði sínu. Þetta myndu flestir hafa séð að væri klárt trúnaðarbrot og myndi kosta starfsmanninn að minnsta kosti brottrekstur. En þá þykjast menn allt í einu finna björgunarleið sem fyrirfram var álíka sennileg og sú sem kom Frank Drebin í veislu í Hvíta húsinu.

Upplýsingarnar, sem starfsmaðurinn aflaði og gaf Reyni Traustasyni, voru um það að fyrirtæki í eigu stjórnarformanns Landssímans hafði fengið greiðslur frá fyrirtækinu. Síðar kom á daginn að stjórnarformaðurinn hafði samið um þessar greiðslur við eina hluthafa fyrirtækisins en ekki fulltrúa hluthafans í stjórn fyrirtækisins. Hlutafélagalög gera ekki ráð fyrir því að formlega séð sé það hluthafi sem skuldbindi fyrirtæki heldur sé það hlutverk stjórnar eða reglulegra stjórnenda. Samkvæmt því var samningur sá sem samgönguráðherra gerði við stjórnarformanninn þannig að hann skuldbatt fyrirtækið ekki í raun, það er að segja, fyrirtækið hefði getað reynt að neita að efna hann og bera það fyrir sig að það hefði ekki verið réttilega skuldbundið. Þessi formsatriði – sem sennilega eru réttasti skilningur hlutafélagalaga – verða svo til þess að fréttamenn Ríkisútvarpsins og DV og háværustu stjórnarandstöðuþingmenn hrópa nú á torgum að samningurinn hafi verið „ólöglegur“ og „lögbrot“ sem „almenningur eigi rétt á upplýsingum um“!

Lögbrotið á að vera það, að stjórn Landssímans vissi ekki af samningnum sem þeir gerðu, stjórnarformaðurinn og eini hluthafinn. Engum dettur í hug að halda því fram að samningurinn sjálfur hafi verið óeðlilegur, meira að segja Samfylkingarkonan sem sagði sig úr stjórn Landssímans á dögunum sagði að stjórnarformaðurinn hefði unnið fyrir öllum þessum greiðslum. „Lögbrotið“, sem á að réttlæta ekki aðeins trúnaðarbrot starfsmanns Landssímans heldur einnig gersamlega ótrúlegan þjóðhetjutitil á hann, er semsagt það eitt að formlega séð var samið við rangan mann! Og það er ekki einu sinni svo, að þjóðhetjan hafi vitað af því að stjórn Landssímans hafði ekki komið að samningsgerðinni. Það er ekki svo að þjóðhetjan hafi hugsað með sér: „Hey! Hér er samningur sem gerður er án vitundar stjórnar Landssímans. Það er andstætt skilningi hlutafélagalaga á því hvaða fyrirsvarsmenn geti skuldbundið lögaðila. Nú er nóg komið. Nú er réttlætiskennd minni ofboðið. Þetta fer ég strax með til Reynis Traustasonar.“ Nei, hann fékk starfsfélaga sinn til þess að veita sér aðgang að bókhaldi vinnuveitanda þeirra, þar gramsaði hann eftir upplýsingum og kom því sem hann fann til Reynis Traustasonar, fulltrúa íslensks almennings.

Og er kallaður þjóðhetja! Meira að segja blaðamaðurinn sem atti honum af stað, honum virðist stundum finnast hann sjálfur ekki minni þjóðhetja. Hann birti meira að segja mynd af sjálfum sér með hinni þjóðhetjunni á forsíðu blaðs síns og var sjálfur aðalmaðurinn á myndinni. Á miðvikudaginn var bætti hann svo um betur með því að birta sömu mynd af sjálfum sér tvisvar á sömu síðunni í DV. Enginn spyr blaðamanninn hins vegar hvers vegna hann hafi sent þennan vesalings starfsmann af stað. Enginn spyr hvort Reynir hafi borið fé á á starfsmanninn til að fá hann til þess arna. DV auglýsir að greitt sé fyrir „fréttaskot“. Var það gert í þessu tilviki? Á „almenningur“ ekki „rétt á því“ að vita hvort „þjóðhetjan“ var á launum hjá fyrirtæki úti í bæ þegar hún gramsaði í óleyfi í bókhaldinu? Enginn spyr hvers vegna blaðamaðurinn hafði ekki spurst fyrir um það eftir venjulegum leiðum hvort stjórnarformaðurinn hefði fengið verktakagreiðslur frá fyrirtækinu, fremur en að fá starfsmann til að hætta starfi sínu og mannorði til að afla upplýsinga um þetta með óleyfilegum hætti. Og enginn spyr starfsmanninn hvers vegna hann lét nægja að koma upplýsingunum til þessa tiltekna blaðamanns. Ekki til stjórnarinnar eða einstakra stjórnarmanna, en eini „glæpurinn“ í málinu er það að stjórnin vissi ekki af samningnum; ekki til nýs forstjóra, en hann hefði getað athugað málið og upplýst stjórnina; ekki til ríkisendurskoðunar, sem endurskoðar reikninga Landssímans. Nei, það er bara látið eins og ekkert sé eðlilegra en einhver Reynir á DV geri menn út af örkinni til þess að brjótast inn í bókhald fyrirtækja, hafa með sér upplýsingar þaðan og setji þær svo í dagblöðin.