Lesendur muna sjálfsagt eftir bréfi sem póstlagt var um mitt ár 1998 og áður hefur verið minnst á hér og víðar. Þetta er bréf sem formaður Alþýðubandalagsins, Margrét Frímannsdóttir, sendi flokksmönnum til að falast eftir fjárstuðningi. Ástæðan fyrir því að bréf þetta var sent er sú „að skuldir flokksins voru miklu hærri en menn höfðu áður talið og gert flokknum grein fyrir á landsfundi 1995. Samkvæmt þeim upplýsingum áttu skuldir flokksins að vera á bilinu 33-35 milljónir króna…“ Og misfellan í bókhaldinu var engin skiptimynt: „Við endurskoðun bókhaldsins kom hins vegar í ljós að skuldirnar voru 52 milljónir króna. Allt eru þetta skuldir sem urðu til á og fyrir árið 1995 og tengjast aðallega kosningum það ár og árið á undan.“ Óvíst er hvort Margrét áttaði sig á því, en í bréfinu fólst ömurlegur vitnisburður um störf fyrrum formanns flokksins, Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lét af störfum á landsfundi 1995 eftir átta ára formennsku. Bréfið var einnig mikill áfellisdómur um störf fyrrum framkvæmdastjóra flokksins til margra ára, Einars Karls Haraldssonar.
Hið alvarlega við þetta bréf kom þó einkum fram í blaðaskrifum tveggja manna sem þekktu vel til innviða Alþýðubandalagsins. Þetta voru þeir Úlfar Þormóðsson og Jón Torfason. Í nokkrum blaðagreinum fóru þeir fram á að fá nánari skýringar um þetta efni og komu um leið fram með alvarlegar ásakanir. Úlfar spurði til að mynda hvort rétt væri að fyrrverandi formaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins „hafi haft nánast óheftan aðgang að sjóðum hreyfingarinnar til einkanota“. Þá spurði hann hvort „einn af framkvæmdastjórum flokksins og einn af oddvitum sameiningarferlisins“ hafi „notað ávísanahefti flokksins eins og sitt eigið og bókhaldarar hreyfingarinnar setið löngum stundum við að flokka sundur nótur af veitingahúsum borgarinnar frá rekstrarnótum flokksins“. Eins og að framan segir felast alvarlegar ásakanir í þessum spurningum, en þó hefur enginn þeirra sem ásakaður er, né nokkur annar, hirt um að svara.
Nú má út af fyrir sig halda því fram að sumar ásakanir séu ekki svaraverðar og að ekki sé hægt að eltast við að svara öllu því rugli sem heyrist í opinberri umræðu. Þetta má oft til sanns vegar færa, en þessar ásakanir eru þó þess eðlis að þeim ætti að svara. Þegar þær koma frá mönnum sem ástæða er til að ætla að þekki til er orðið nauðsynlegt fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega að hreinsa sig af þeim – ef þeir geta. Séu ásakanirnar hins vegar sannar kann að vera að skárra sé að sitja undir þeim og vona að einhverjir trúi samt að þær séu ósannar.
Ásakanirnar verða þó fyrst virkilega óþægilegar þegar þeir sem undir þeim sitja hætta að leika hlutverk stjórnmálamanna og takast á hendur önnur embætti þar sem traust þarf að ríkja um störf þeirra og æskilegt er að þeir séu sem minnst umdeildir. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, fór í slíkt starf eins og lesendur Vef-Þjóðviljans vita, enda hefur Vef-Þjóðviljinn verið sá fjölmiðill sem hefur síðan fjallað um hann af hvað mestu trygglyndi. Einar Karl Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins, hefur hins vegar þar til nýlega ekki gegnt slíku starfi. Þegar hann tók við starfi formanns stjórnar Hjálparstarfs kirkjunnar breyttist staða hans hins vegar og nauðsynlegt hefði verið að spurningum Úlfars hefði verið svarað áður en til þessarar heldur óvæntu upphefðar Einars Karls kom.
Á þetta voru menn minntir þegar um daginn fréttist að Einar Karl hafi lagt land undir fót, horfið til Indlands og sé ekki væntanlegur á ný fyrr en síðar í mánuðinum. Hann sé þar nú ásamt fleirum í þeim tilgangi að kynna sér þróunarverkefni. Kostnaður við ferðina fékk sérstaka umfjöllun og var þá tekið fram að ferðakostnaður væri ekki greiddur af söfnunarfé heldur með öðrum tekjum Hjálparstarfsins. Óvíst má telja að þeir sem styrkja Hjálparstarfið sjái mun á því af hvaða bankareikningi farmiðinn er greiddur, hvort hann er greiddur með föstum styrkjum eða úr sérstökum átakssjóði. Einnig er óvíst að þeir sjái að hjálparstarfinu sé mikill fengur í ferðalagi Einars Karls og sumir telja vafalaust að Indverjar í neyð þurfi fremur annan styrk en Einar Karl.
Allt er þetta þó umdeilanlegt, en þangað til spilin hafa verið lögð á borðið vegna fyrrgreindra ásakana Úlfars og félaga og þangað til menn hafa hreinsað sig af þeim er alltaf meiri hætta á að upp komi efasemdir um störf sem þeir gegna. Og þá er hætt við að efasemdirnar bitni á málstaðnum sem menn eiga að vera að vinna gagn. Í þessu tilviki hjálparstarfi kirkjunnar.