Algengt er að heyra fullyrðingar þess efnis að hagvöxtur gagnist hinum ríkari meira en þeim sem fátækari eru. Þessi skoðun er oft viðruð, hvort sem um er að ræða samanburð á fólki innan lands eða samanburð á milli þjóða. Vinstri mönnum er sérlega tamt að nota þessa röksemd fyrir því að ríkið eigi að grípa inn í gang efnahagslífsins til að lyfta hinum efnaminni upp, jafnvel þó það sé á kostnað vaxtarins. Nú er komin út skýrsla hjá Alþjóðabankanum sem gerir vinstri mönnum erfiðara fyrir að halda þessu fram og voru röksemdirnar þó nógu veikar fyrir.
Í nýjasta tölublaði The Economist er sagt frá þessari skýrslu. Skoðuð eru gögn frá 80 löndum yfir 40 ára tímabil og kemur fram að hagvöxtur hjálpar hinum fátæku jafn mikið og hinum ríku. Í skýrslunni er kannað hvort hinir fátæku hagnist minna fyrst á vextinum, eins og stundum hefur verið haldið fram. Í ljós kemur að svo er ekki og báðir hópar hagnast jafn fljótt. Sú tilgáta er líka vinsæl að hinir fátæku fari verr út úr því þegar að kreppir. Svo er ekki, ef marka má skýrsluna.
Svo er því stundum haldið fram (þetta er sérstaklega vinsæl kenning meðal þeirra sem berjast gegn frjálsum milliríkjaviðskiptum) að í hinu nýja efnahagsumhverfi þar sem alþjóðaviðskipti fara vaxandi eigi það ekki lengur við að allir hagnist á auknum vexti. Samkvæmt rannsókninni er þetta fjarstæða. Hinir fátækari hagnast tiltölulega jafn mikið í dag og áður og þar með jafn mikið og hinir ríkari. Kenningar um að hinir fátækari sitji eftir styðjast hreinlega ekki við rök. Einnig er athyglisvert að skýrslan staðfestir það sem hægri menn hafa lengi haldið fram, nefnilega að traustur eignarréttur eykur velmegun allra. Því traustari fótum sem eignarrétturinn stendur þeim mun betur farnast öllum hópum. Og ólíkt því sem vinstri menn halda fram þá gagnast hann hinum ríkari ekki meira en hinum fátækari.
Það sem sumum (lesist: vinstri mönnum) kemur ef til vill helst á óvart í niðurstöðu skýrslunnar er að minni verðbólga og lækkun ríkisútgjalda eykur bæði hagvöxt og jöfnuð. Þetta passar auðvitað illa við kenningar þeirra sem sífellt heimta aukin ríkisafskipti af meintri greiðasemi við hina efnaminni.