Ígærmorgun gafst hinum almenna skattgreiðanda tækifæri til að hlusta á tvo starfsmenn sína ræða saman um hve jákvætt það sé að frelsi almennings verði skert á árinu og hve mikilvægt það sé að hækka skatta í landinu. Þessar samræður fóru vitaskuld fram í útvarpi skattgreiðenda, sem sendir út á þeirra kostnað hvort sem þeim líkar betur eða verr. Samræðurnar voru á milli þáttarstjórnanda morgunútvarpsins á Rás 1 og Önnu Elísabetar Ólafsdóttur forstjóra Manneldisráðs, – afsakið Lýðheilsustöðvar.
Anna Elísabet upplýsti í viðtalinu hversu mikill sigur hefði unnist þegar tókst að koma nýju tóbakslögunum í gegn, en með þeim verða reykingar með öllu bannaðar á veitingastöðum um mitt ár, hvort sem allir viðstaddir, þar með talið eigandi og starfsmenn, vilja reykja eða ekki. Rökin eru þau að þetta sé „vinnuverndarmál“, auk þess sem forstjórinn fullyrti að óbeinn reykur væri barasta „ekkert síður hættulegur en sá sem reykingamaðurinn sogar að sér“. Ef óbeinar reykingar eru ekki síður hættulegar en beinar reykingar, þá eru þær væntanlega hættulegri, því að ólíklegt verður að teljast að þær séu nákvæmlega jafn hættulegar. En þó að fullyrðingin sé augljós fjarstæða og styðjist hvorki við rannsóknir né heilbrigða skynsemi sá þáttarstjórnandi vitaskuld ekki ástæðu til að staldra við og fá nánari útskýringu.
Hann sá ekki heldur ástæðu til að gera athugasemd við það þegar Anna Elísabet undir lok þáttarins sagðist vera þeirrar skoðunar að skólabörn „eigi að fá frían mat“ í skólunum. Það þarf út af fyrir sig ekki að fara út í það hér að vitaskuld er maturinn ekki „frír“. Hann kostar jafn mikið – eða jafnvel meira ef reynslan af ríkisrekstri er nokkur vísbending – og þegar hann er greiddur beint. Munurinn er bara sá að ákvörðunin um matinn er tekin úr höndum foreldranna og flutt til hins opinbera. Með „fríum“ skólamáltíðum færast börnin skrefi nær því að alast alfarið upp hjá hinu opinbera og skrefi fjær því að alast upp á ábyrgð foreldra sinna. Sumum þykir þessi þróun í átt að ríkisuppeldi af einhverjum ástæðum fagur draumur, en fyrir öðrum er slík þróun skiljanlega martröð.
Eins og jafnan er hollt fyrir fólk að spyrja sig hvað komi næst, þegar ríkisstarfsmenn eða aðrir setja fram slíkar hugmyndir. Hvaða skref vilja félagshyggjumennirnir taka næst? Það þarf ekki að spyrja hvort þeir vilja taka annað skref í átt til alræðisins, aðeins hvert skrefið verður. Líklega verður næsta skref í þessu sambandi að skattgreiðendur greiði ekki aðeins fyrir hádegisverðinn, heldur einnig morgunverðinn, því að hann er mikilvægasta máltíð dagsins eins og menn vita. Með lengri skóladegi má svo bæta kvöldverðinum við og þá geta börnin alfarið hætt að borða á ábyrgð foreldra sinna og hægt er að beina því til foreldra að láta ríkinu alfarið eftir næringu barnanna, enda hafa foreldrarnir sem kunnugt er lítið vit á þörfum barna sinna.
Og fyrst minnst var á reykingar hér að framan þá liggur auðvitað beint við að banna þær á heimilum þar sem börn búa, en eftir tiltölulega nýlegar lagabreytingar eru Íslendingar sem kunnugt er börn langt fram eftir aldri – og alla tíð ef Lýðheilsustöð fær nokkru ráðið. Það verða auðvitað engin vandamál að rökstyðja það að barnaverndarsjónarmið eigi að hindra reykingar á heimilum fyrst að vinnuverndarsjónarmið hindra reykingar á veitingastöðum. Veitingastaðir verða örugglega ekki reyklausir lengi áður en farið verður að vinna í því að skerða frekar réttindi fólks á eigin heimilum.