Á dögunum hafði Stöð 2 langt og mikið viðtal við Guðrúnu Jónsdóttur arkitekt um baráttu hennar og fleiri fyrir friðun nokkurra húsa í miðbænum árið 1972. Kom greinilega fram hve Guðrún hefði verið vaskur baráttumaður og á undan sinni samtíð. Þetta tengist að sjálfsögðu ekki því að Guðrún Jónsdóttir arkitekt var að gefa kost á sér til þátttöku í prófkjöri R-listans fyrir næstu borgarstjórnarkosningar.
Það er alkunna að þegar menn þrýtur umræðu- og eða ágreiningsefni þá berst talið að veðrinu og ef engin tíðindi eru af veðrinu þá víkur máli manna gjarna að tímanum, hve hratt eða hægt hann líði o.s.frv. Þetta er einmitt lýsandi fyrir svokallaða stjórnmálaumræðu á Alþingi, en þar deila menn nú helst um hvort hann fari hlýnandi eða kólnandi, hvort hann sé á suð-austan eða norð-vestan og þegar engin tíðindi eru af veðrinu þá deila menn um hvað klukkan er og hvað hún ætti að vera og hvort hún eigi að vera á sumar- eða vetrartíma. Það er tillaga VÞ að stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstæðingar sendi nú frá sér þingsályktunartillögu þess efnis að hægt verði á tímanum í hlýindum og honum svo aftur hraðað þegar kólna fer. Menn geta þá rétt ímyndað sér hversu mikið fjölskyldur landsins gætu grillað. Með þessu væri vandi landbúnaðar, gróðurhúsaáhrifa og skammra samverustunda fjölskyldunnar í nútímasamfélagi leystur. Þetta væri sannkölluð heildarlausn og gott ef ekki heildræn stefnumótun til framtíðar eins og allt gott mun vera nú til dags.
Forystumenn vinstri flokkanna, einkum Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, keppast við það í fjölmiðlum að segja fólki að flokkar þeirra séu úreltir. Þessi söngur virðist bera talsverðan árangur, enda sýnir hver skoðanakönnunin á fætur annarri að kjósendur eru að yfirgefa þá í stórum hópum. Aftur á móti mælist fylgi Sjálfstæðisflokksins sífellt meira, og er því ljóst að sjálfstæðismenn standa í talsverðri þakkarskuld þessa dagana við þau Margréti og Sighvat og kórfélaga þeirra í sameiningarkórnum.
Hitt er svo annað mál, að hræðsluáróðurinn sem rekinn er fyrir sameiningu vinstri flokkanna kann að bera nokkurn ávöxt. Þeir kjósendur, sem í dag hafna Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi, ættu hins vegar að velta fyrir sér hvað getur komið út úr því þegar tveir flokkar, sem lýsa sjálfum sér sem getulausum og úreltum, sameinast. Getur útkoman úr dæminu 0 + 0 nokkurn tímann orðið önnur en 0 ?