Hve sekir voru Þjóðverjar? er heiti á fyrirlestri sem dr. Valur Ingimundarson flutti s.l. þriðjudagskvöldið 2. desember um bók D. J. Goldhagens, Hitler’s Willing Executioners: Ordinary Germans and the Holocaust, sem út kom í fyrra. Erindið var á vegum Sagnfræðingafélags Íslands og sendi VÞ blaðamenn á staðinn enda hefur bókin vakið mikla athygli, sérstaklega í Bandaríkjunum og Þýskalandi, og því var spennandi að heyra álit íslensks sagnfræðings. Í bókinni leggur höfundur áherslu á að Þjóðverjar, ekki aðeins nasistar, hafi almennt verið reiðubúnir til að myrða Gyðinga vegna rótgróins haturs á þeim. Valur lýsti í fyrirlestrinum þeirri skoðun sinni að Goldhagen tækist ekki í bókinni að sýna fram á þetta, en gekk þó alls ekki eins langt og þeir sem lengst hafa gert í gagnrýni á bókina. Valur telur að taka þurfi fleira með í reikninginn en Goldhagen gerir, s.s. þá Þjóðverja sem ekki hafi sýnt Gyðingum fjandskap, samsvarandi glæpi gegn öðrum hópum og ógnarstjórn nasista. Hann er þeirrar skoðunar að sekt venjulegra Þjóðverja sé í því fólgin að hafa staðið hjá í stað þess að aðhafast eitthvað þegar ógnarstjórn þjóðernisjafnaðarmanna brytjaði niður náunga þeirra.
Hvort sem Goldhagen hefur rétt fyrir sér eða ekki um það hvernig Helförin gat átt sér stað er bók hans um margt umhugsunarverð. Í henni er fjallað ítarlega um þrjár aðferðir sem notaðar voru við morðin, en þær voru lögreglusveitir, vinnubúðir og dauðagöngur. Ein kenningin um það hvers vegna menn fengust til að taka þátt í þessum óhugnanlegu fjöldamorðum er myndast hafi einhvers konar múgæsingur eða hópþrýstingur. Það er lyginni líkast að hugsast geti að slíkt fái menn til voðaverka af því tagi sem um ræðir og vægast sagt óhugnanleg tilhugsun. Þetta segir okkur kannske meðal annars að gjalda varhug við þeim stjórnmálamönnum og þeim stjórnmálahugsjónum sem gera út á lægstu hvatir fólks og reyna að æsa það upp gegn einhverjum meintum óvini. Slíkt þekkist því miður enn í stjórnmálaumræðu, því alltaf virðast einhverjir vera tilbúnir að berjast með slíkum hætti fremur en með rökum.
Þótt of langt væri seilst að líkja jafnaðarstefnu eða félagshyggju nútímans við þjóðernisjafnaðarstefnu Hitlers má þó draga nokkurn lærdóm af henni. Hóphyggjan sem tröllreið öllu og olli óendanlegum hörmungum í Þriðja ríkinu (og raunar um allan heim) á fjórða og fimmta áratug aldarinnar er að sumu leyti ekki eðlisólík þeirri hóphyggju sem stundum má greina í þjóðmálaumræðunni nú. Fólk er iðulega flokkað eftir hópum í stað þess að á það sé litið sem einstaklinga og þótt afleiðingarnar séu vissulega ekkert í líkingu við þær sem menn þekkja frá þjóðernisjafnaðarstefnunni eru þær þó oft slæmar. Þannig er hópum att saman, konum gegn körlum, landsbyggðarfólki gegn höfuðborgarbúum, námsmönnum gegn launamönnum, innfæddum Íslendingum gegn aðfluttum og svo mætti áfram telja. Þessi árátta heildarhyggjumanna er afar hvimleið svo ekki sé meira sagt og víst er að öðruvísi væri um að litast í þjóðfélaginu ef fólk horfði á annað fólk sem einstaklinga en ekki aðeins sem hluta af hópi.