Laugardagur 6. september 1997

249. tbl. 1. árg.
Forsvarsmenn verkalýðsfélaga…
hafa hingað til sýnt því lítinn skilning að óeðlilegt sé að neyða fólk til að vera í félögum gegn vilja þess. Grein formanns Rafiðnaðarsambandsins, Guðmundar Gunnarssonar, í Mogganum gefur þó vonir um að breyting fari að verða á afstöðu manna á þeim bæjum. Í greininni gagnrýnir hann borgaryfirvöld fyrir nauðungarflutninga sumra borgarstarfsmanna á milli stéttarfélaga og telur að starfsmenn eigi að fá að velja sér stéttarfélög sjálfir. Hann klykkir út með eftirfarandi: „Það að vinnuveitandi ákvarði einhliða hvort og í hvaða félagi launþegar eru, er brot á íslenskri stjórnarskrá og félagafrelsi.“ Undir þetta skal tekið, enda fráleitt að aðrir en einstaklingurinn sjálfur ákveði hvort og þá í hvaða félagi hann er.

Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju…
voru að senda frá sér nýtt fréttabréf. Á forsíðu bréfsins er mynd af Evrópu þar sem þau lönd sem kirkjan er hluti af ríkisvaldinu eru skyggð. Þessi lönd eru Ísland, Bretland, Danmörk, Noregur, Finnland og Svíþjóð en Svíar hafa þó ákveðið að skilja að ríki og kirkju árið 2000. Í bréfinu er leiðari eftir Björgvin Brynjólfsson, oddvita SARK. þar sem hann gagnrýnir m.a. að fjórir æðstu menn þjóðarinnar, forseti Íslands, forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar skuli taka þátt í starfi kistnihátíðarnefndar. Og svo segir Björgvin: „Kostnaðurinn við hátíðina er talinn verða nokkur hundruð milljóna sem þjóðin fær að borga með ýmsum leiðum. Á tímum sparnaðar og niðurskurðar er þessi ráðstöfun ríkisfjár hneyksli sem seint mun gleymast.“ Í fréttabréfinu er einnig sagt frá því að SARK muni á næstunni setja upp heimsíðu en slóðin verði http://www.islandia.is/~sark