Mánudagur 16. ágúst 1999

228. tbl. 3. árg.

Guernsey er eyja á Ermarsundi sem er undir bresku krúnunni en að öðru leyti sjálfstæð. Á eyjunni er mikill pólitískur stöðugleiki. Skattkerfið hefur verið svo að segja óbreytt áratugum saman. Innheimtur er 20% flatur tekjuskattur og dugar hann m.a. til að greiða fyrir stjórnsýslu og félagslegt kerfi sem er sambærilegt við það sem gerist annars staðar á Vesturlöndum. Einn kosturinn við tiltölulega lága og flata skattprósentu er að menn vilja vinna, enda er atvinnuleysi ekki nema 0,5% á Guernsey. Í stuttu máli sagt ríkir á Guernsey og eyjum tengdum henni mikil velsæld.

Hvernig tekst íbúum þessarar litlu eyju, en þeir eru um 60.000 talsins, að halda sköttum svo lágum í svo langan tíma? Þetta er sérstaklega umhugsunarvert þegar íbúar annarrar eyju, nokkru norðar, eru hafðir í huga. Þeir eru líka fáir, rúmlega 270.000, en þurfa að greiða um það bil tvöfalt hærri skatta og búa við alls kyns pólitísk upphlaup eyðslusamra og stjórnlyndra stjórnmálamanna.

Ein skýringin kann að vera ólíkt viðhorf þeirra sem leika hinn pólitíska leik á eyjunum tveimur. Í samtali tímaritsins EuroBusiness við háttsettan stjórnmálamann á Guernsey, Laurie Morgan, kemur fram að í ríkisútgjöldum hafi stakkur verið sniðinn eftir vexti: „Við eyðum aðeins því fé sem við höfum til umráða. Jafnvel þó á áætlun sé að eyða tiltekinni upphæð, þá er eyðslunni frestað þar til síðar ef fjármunir eru ekki til.“

Morgan heldur áfram: „Við skattleggjum almenning ekki meira en þörf krefur. Það er engin ástæða til að hafa skatthlutföll eins há og talið er að fólk geti ráðið við að greiða.“ Þarna er ef til vill kominn hluti af skýringunni á því hvers vegna tekst að halda sköttum lágum á annarri eyjunni en ekki hinni. Á annarri eyjunni finnst stjórnmálamönnum að skattar eigi að vera sem lægstir, en á hinni berjast flestir stjórnmálamenn fyrir því – í orði og/eða á borði – að skattar séu sem hæstir.