Vefþjóðviljinn 67. tbl. 20. árg.
Eitt af einkennum fréttastofu Ríkisútvarpsins er næstum óendanlegur áhugi starfsmanna hennar á „mótmælum“. Engu virðist skipta hversu fámenn „mótmæli“ eru, allir þeir sem koma saman til þess að öskra opinberlega fá fréttamann á sinn fund og tækifæri til að þylja skoðanir sínar yfir hlustendum Ríkisútvarpsins. Ekki er langt síðan Ríkisútvarpið sendi fréttamann á mótmælafund, þar sem fundarmenn voru að sögn fréttamannsins „um fimm manns“, og svo var forsvarsmanni „mótmælenda“ réttur hljóðneminn með spurningunni „Helga Björk, hverju viljið þið koma á framfæri?“
Í síðustu viku mun kona ein hafa boðað til mótmæla fyrir utan húsnæði Sjúkratrygginga Íslands og talaði þar í gjallarhorn um það hvernig farið væri með aldraða og öryrkja. Fáir sáu víst ástæðu til að koma á fundinn. En fréttastofa Ríkisútvarpsins telur stórmál á ferðinni. Hún gerir ítrekaðar fréttir um það sinnuleysi að ekki hafi fleiri mætt og ræðir ítrekað við konuna sem boðaði til mótmælanna. Um þetta var löng frétt í sjónvarpi á laugardag og önnur í útvarpi í hádegi á sunnudag.
Og meira en það. Á vef Ríkisútvarpsins má lesa langa frásögn af þessu fréttnæma máli. Fyrirsögnin segir meira en mörg orð um hlutleysið og fréttamatið í Efstaleiti 1: „Ákall til almennings – magnþrungin ræða“.
Í fréttinni fullyrðir fréttastofan að ræða konunnar hafi verið „magnþrungin“. Talað er við konuna í fréttinni og magnþrungna ræðan birt í heild.
Dettur einhverjum í hug að heilbrigt fréttamat ráði hér för? Að það séu gerðar ítrekaðar fréttir um örfámennan útifund, ræða fundarboðandans birt í heild og fullyrt af hálfu fréttastofunnar að ræðan hafi verið „magnþrungin“?
Hvers konar áróðursstöð er þetta eiginlega?
Ef einhver heldur að það geti verið eðlilegt að segja í fréttum að tiltekin barátturæða hafi verið „magnþrungin“, bara af því að fréttamanni hafi fundist það, þá ættu menn að velta fyrir sér viðbrögðunum ef í fyrirsögn hefði staðið: „Örfámennur mótmælafundur. Ekkert sérstök ræða“.