Vefþjóðviljinn 128. tbl. 20. árg.
Það heyrist úr öllum áttum að vegakerfi landsins þarfnist verulegra lagfæringa.
Þeir skattar sem bíleigendur greiða umfram það sem greitt er í skatta af öðrum varningi renna aðeins að hluta til vegagerðar. Hér er um að ræða bifreiðagjald, vörugjald af bifreiðum, kolefnisgjald, vörugjöld á eldsneyti, (bensíngjald og olíugjald).
En fara þessir bílaskattar þá ekki í mikilvæg mál eins og heilbrigðiskerfið og skólana?
Sjálfsagt að einhverju leyti.
En um 1 milljarði króna af eldsneytissköttunum er hins vegar árlega varið til niðurgreiðslu á innflutningi lífeldsneytis sem blandað er í bensín og Dieselolíu. Enginn ávinnungur er af þessu fyrir umhverfið, bíleigendur þurfa að fara fleiri ferðir en áður á bensínstöðvar og hugsanlega fer einhver svangur í háttinn í kvöld því maískakan hans var sett á bensíntank á Íslandi.
Það er veruleg ráðgáta hvers vegna skattfé er varið á þennan hátt. En þetta er auðvitað eitt af málum vinstri stjórnarinnar frá síðasta kjörtímabili og eins og menn þekkja hefur það verið stjórnarstefnan undanfarin þrjú ár að hrófla í engu við því sem sú stjórn gerði. Að vísu virðist Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hafa gert undantekningu frá þessu með nýlegri breytingu á byggingareglugerð vinstri stjórnarinnar.
Núverandi ríkisstjórn er jafnvel með hugmyndir um að hafa kosningar í haust og hleypa vinstri flokkunum að völdum svo ekki sé hætta á því að tekjuskatturinn lækki í byrjun næsta árs.