Föstudagur 1. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 1. tbl. 20. árg.

Það er hægt að segja mikla sögu í fáum orðum. Jafnvel hægt að draga upp lýsandi mynd í örfáum oðrum og það án þess að ætla sér það.

Ein slík lýsandi mynd var dregin upp í örstuttri áramótakveðju forstjóra Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Eins og menn vita hefur áramótakveðja frá Ríkisútvarpinu verið fastur liður á áramótum. Útvarpsstjóri birtist á skjánum andartaki eftir miðnætti og sagði hvaða ár var liðið og hvaða ár gengið í garð, en svo að Ríkisútvarpið Sjónvarp óskaði öllum landsmönnum gleðilegs árs.

Í gærkvöldi flutti forstjórinn stutta kveðju. En hún var ekki frá Ríkisútvarpinu. Hann sagðist óska landsmönnum gleðilegra jóla „fyrir hönd starfsfólks Ríkisútvarpsins“.

Nú er líklega engin ástæða til að ætla að þetta hafi verið þaulhugsað orðalag. Og ef ekkert væri að í Efstaleiti hefði enginn velt þessu fyrir sér. En einn megingallinn við Ríkisútvarpið er að starfsmennirnir fara ítrekað með það eins og þeir eigi það. Þeirra eigið gildismat er mjög ráðandi. Fréttir, viðtöl, umræðuefni og val viðmælenda er mjög í samræmi við þetta. Og af þessu kemur slagsíðan, fremur en að í gangi sé vandlega skipulagt samsæri.

Í Efstaleiti snúast hlutirnir um starfsmennina. Sumir starfsmenn flytja meira að segja pistla í eigin nafni um pólitísk deilumál án þess að neinn í Efstaleiti virðist telja þörf á að bjóða fulltrúum annarra viðhorfa pláss við hljóðnemann.

Þótt það hafi eflaust verið tilviljun er eðlilegt að áramótakveðjan úr Efstaleiti hafi verið í nafni starfsmanna Ríkisútvarpsins en ekki Ríkisútvarpsins.