Miðvikudagur 5. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 217. tbl. 19. árg.

Áróðurinn bítur. Það skiptir auðvitað máli þegar áróðursmenn syngja sama sönginn árum saman. Þegar þeir búa sér til ný og ný tækifæri til að styrkja þá mynd sem þeir sjálfir vilja að landsmenn hafi af þjóðmálum. Það er ekki komið til af engu að stór hluti kjósenda vill nú nýtt fólk, ný vinnubrögð, nýtt gegnsæi, nýja frasa.

Fjölmiðlar sögðu af því fréttir um mánaðamótin að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra greiddi nú lægri opinber gjöld en hann hefði gert í fyrra. Þetta væri af því að „auðlegðarskatturinn“ hefði verið afnuminn. Ríkisútvarpið tók auðvitað þátt í þessum fréttaflutningi og tók fram að vinstristjórnin hefði komið skattinum á.

Það er ekki vafi á því að samfelldar „fréttir“ á borð við þessa eiga talsverðan þátt í því að fylgi stjórnarflokkanna hækkar lítið, hvernig sem efnahagslífið færist til betri vegar.

Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn gerði ekkert við „auðlegðarskattinn“. Vinstristjórnin sem setti hann á ákvað sjálf að hann skyldi verða tímabundinn og renna út á fjórum árum. Núverandi ríkisstjórn hefði getað stytt þann tíma, en hún gerði það ekki. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra innheimti auðlegðarskatt samkvæmt þeim lögum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lét setja. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra greiddi auðlegðarskatt samkvæmt þeim sömu lögum. Þeir hefðu auðvitað getað látið breyta lögunum og flýtt því að skatturinn rynni út, en þeir gerðu það ekki. Þeir létu lög Jóhönnustjórnarinnar standa óbreytt, eins og þeir hafa reyndar gert við nær öll lögin sem sú stjórn lét setja.