Laugardagur 10. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 10. tbl. 19. árg.

Biskup Íslands virðist hafa sent forsætisráðherra bréf með ótrúlegu erindi.
Biskup Íslands virðist hafa sent forsætisráðherra bréf með ótrúlegu erindi.

Það getur vart staðist eins og ráða má af fréttum undanfarna daga að „biskup Íslands“ hafi sent forsætisráðherra bréf og óskað eftir því að fá einhverjar 666 milljónir króna sem skattgreiðendur hafi ekki látið kirkjuna hafa á undanförnum árum. Ekki virðast hafa fylgt þessu ótrúlega erindi tillögur um hvar ætti að ná í þessa fjármuni.

Þessir peningar voru ekki til og eru ekki til. Það er enginn afgangur af rekstri ríkissjóðs til að mæta auknum útgjöldum og jafnvel þótt svo væri er nóg af skuldum sem nauðsynlegt er greiða niður.

Það sem „biskup Íslands“ virðist því vera að fara fram á er að börnin í landinu verði veðsett svo kirkjan fái sínar 666 milljónir króna sem hún telur sig hafa átt að fá í fortíðinni. Þessum gjöldum verði velt yfir á framtíðina. Leyfið skuldunum að koma til barnanna.

En kirkjan ætlar sér ekki aðeins að sækja peninga með vísan til fortíðar.
Innanríkisráðherra skipaði fyrir ári starfshóp um fjárhagsleg málefni þjóðkirkjunnar sem skilaði tillögum sínum í ágúst. Í hópnum voru fjórir menn, þar af að minnsta kosti þrír með mikil tengsl við kirkjuna og af þeim tveir skipaðir af kirkjuráði. Tillaga hópsins er, og gettu nú skattgreiðandi, aha að sóknargjöld á almenning verði hækkuð.

Þessi sókn kirkjunnar gegn skattgreiðendum er vissulega áminning um nauðsyn þess að rjúfa tengsl ríkisins við kirkjuna en ekki helsta ástæðan fyrir því að skilja beri þar á milli.