Mánudagur 5. janúar 2015

Vefþjóðviljinn 5. tbl. 19. árg.

Úr Hagsjá Landsbankans. Vaxtagjöldin sem ríkissjóður ber eru ofboðsleg. Ekki eru þrýstihóparnir er fara fram á að þau lækki.
Úr Hagsjá Landsbankans. Vaxtagjöldin sem ríkissjóður ber eru ofboðsleg. Ekki eru þrýstihóparnir er fara fram á að þau lækki.

Í nýlegri Hagsjá sinni segir Landsbanki Íslands meðal annars:

Hagstæð niðurstaða í ríkisreikningi fyrir 2013 og í fjáraukalögum ársins 2014 kemur fyrst og fremst til vegna óreglulegra einskiptis tekjufærslna. Stórum hluta þessa óvænta tekjuauka er varið til aukinna útgjada í stað þess að grynnka á skuldum. … Þannig hækka útgjöld ríkisins um næstum 16% milli áranna 2013 og 2014 esm að mestu leyti er raunaukning þar sem verðbólga er lítil. Nýsamþykkt fjárlög fyrir 2015 gefa allt aðra mynd. Þar er gert ráð fyrir að heildarjöfnður verði einungis um 3,5 ma kr., sem er einungis um 0,2% af landsframleiðslu. Miðað við sögu síðustu ára og að óvæntar tekjur og einskiptistekjur verði ekki eins miklar og síðustu 2 ár kæmi ekki á óvart að endanleg niðurstaða ársins 2015 verði neikvæð. Til þess að tryggja afgang af rekstri ársins 2015 þyrfti afgangur á fjárlögum að vera mun meiri.

Hér er margt sagt sem menn ættu að hugsa um. Öfugt við það sem menn gætu haldið ef þeir tækju mark á forkólfum stjórnarandstöðunnar, pistlahöfundum vinstrimanna og velflestum umræðuþáttum Ríkisútvarpsins, þá þenjast opinber útgjöld út og niðurskurður sem skiptir máli er lítill sem enginn. Þegar við bætast óvæntar tekjur, sem ekki er ástæða til að ætla að komi aftur, þá er brugðist við því að auka ríkisútgjöldin verulega milli umræðna um fjárlagafrumvarpið. Þannig voru meðal annars framlög til Ríkisútvarpsins aukin verulega en einnig framlög til ýmissa menningarverkefna, auk sjúkrahúsanna, en á sama tíma standa forystumenn stjórnarandstöðunnar í þinginu og tala um „dólgafrjálshyggju“ sem ráði ríkjum.

Aukning ríkisútgjalda í framhaldi af aðeins betri stöðu en menn höfðu búist við, er eins og er maður nokkur, skuldugur upp fyrir haus og á í miklu basli með reikningana um hver mánaðamót, fær skyndilega 500.000 króna happdrættisvinning. Hann gæti greitt fjárhæðina inn á skuldir sínar og létt þannig greiðslubyrði sína svolítið til frambúðar. En hann gerir það ekki heldur kaupir nýjan lampa og býður konunni og börnum síðan til Kanaríeyja.

Það er auðvelt að hneykslast á þessum manni. En það er líka auðvelt að hafa samúð með honum. Þótt það sé hann sjálfur sem taki ákvörðunina, það var hann sem fékk happdrættisvinninginn, þá er hann ekki einn á báti. Fjárhagsáhyggjurnar hafa auðvitað lagst á alla á heimilinu. Þar eru allir búnir að fá sig fullsadda á athugasemdum og ráðleggingum vina, kunningja og þjónustufulltrúa, sem vilja að menn spari, spari og borgi niður skuldir. Maðurinn sem fékk vinninginn veit að hann verður áfram skuldugur, þótt hann láti vinninginn inn á skuldirnar. En með lampanum og Kanaríeyjaferðinni getur hann glatt fjölskylduna, andrúmsloftið á heimilinu verður léttara og hefur hann ekki unnið fyrir því að lyfta sér aðeins upp?

Hvað ætli aðrir í fjölskyldunni ráðleggi? Jú, bjóddu okkur í ferðalag. Nei annars, láttu þetta frekar inn á Íbúðarsjóðslánið.

Fjármálaráðherra og stjórnarþingmenn sem sjá skyndilega að staða ríkissjóðs er um stund skárri en þeir héldu að hún yrði, hvað eiga þeir að gera? Segjum til einföldunar að þeir telji sig hafa fimm milljarða handbæra sem þeir höfðu ekki búist við. Eiga þeir að auka greiðslur opinberra skulda um fimm milljarða? Hver verður ánægður með það? Hver veit hverjar opinberar skuldir eru? Hver tekur eftir því ef þær verða lækkaðar um fimm milljarða?

Eða eiga þeir að leggja fimm milljarðana í ýmis útgjöld? Fimmtíu milljónir hingað, þrjátíu þangað. Milljarð hingað. Fjölmargir verða ánægðir, eða að minnsta kosti ekki alveg eins óánægðir. Nema auðvitað starfsmenn Ríkisútvarpsins sem ekki verða ánægðir fyrr en þeim verður formlega gefið Ríkisútvarpið með öllum eignum en ekki skuldum.

Nú segir kannski einhver að auðvitað verði ráðamenn að taka almannahag fram yfir skammtíma pólitískan hag. Það er alveg rétt. En menn ættu að hafa í huga að það verður miklu auðveldara fyrir ráðherra og þingmenn að standa gegn þrýstihópunum og sérhagsmunabaráttunni, ef einhver stendur þar með þeim. Ef fleiri tækju upp almenna baráttu gegn aukningu ríkisútgjalda. Ef fleiri tækju upp almenna baráttu fyrir greiðslu opinberra skulda. Ef fleiri tækju upp almenna baráttu fyrir lækkun skatta, en skattalækkun eykur ráðstöfunarfé hins almenna manns en minnkar það sem stjórnmálamenn geta veitt til sérhagsmunahópanna.

Ef aftur er hugsað til mannsins sem fékk happdrættisvinninginn þá hefði hann hugsanlega tekið aðra ákvörðun ef hann hefði vitað að allir á heimilinu legðu áherslu á að fjölskyldan yrði skuldlaus og að þá yrði komin góð ástæða til að gera vel við sig.