Vefþjóðviljinn 214. tbl. 18. árg.
DV er alla jafna er mjög fylgjandi „lekum“, að upplýsingar og gögn séu tekin í heimilarleysi úr fyrirtækjum og stofnunum og þau afhent fjölmiðlum til hagnýtingar. En undanfarna mánuði hefur blaðið verið líkt og naut í flagi vegna minnisblaðs um hælisleitanda sem „lekið“ var til fjölmiðla, að vísu annarra blaða en DV. Litli minnisblaðsmaðurinn skal settur í gapastokkinn og þangað til það gerist skal málið nýtt sem pólitískur atgeir gegn innanríkisráðherra.
Fréttablaðið og mbl.is, sem hagnýttu sér hinar illa fengnu upplýsingar hafa ekki viljað upplýsa landsmenn um hvaðan þær komu þótt þar með fengist botn í málið. „Upplýsingaskylda fjölmiðla“ við almenning nær nú ekki lengra en svo.
Þetta er nú aldeilis glæsileg staða hjá dagblöðunum þremur.
En má þá ekki treysta því framvegis að DV nýti alls ekki upplýsingar, gögn, tölvupósta og annað sem eigendur eða þar til bærir aðilar hafa ekki látið af hendi af fúsum og frjálsum vilja? Og alveg sérstaklega ef um er að ræða upplýsingar um persónuleg málefni fólks?
Og gæti verið að Fréttablaðið og Morgunblaðið læri sömuleiðis að láta ekki nota sig þegar koma á höggi á menn með upplýsingum sem augljóslega voru ekki ætlaðar til dreifingar?