Vefþjóðviljinn 157. tbl. 18. árg.
Fyrst eftir kosningarnar um síðustu helgi töluðu menn mikið um minnkandi kjörsókn og töldu hana mikla ógn við lýðræðið. Ýmsar skýringar eru auðvitað á minnkandi kjörsókn, svo sem dauflegri stjórnmál, keimlíkir flokkar, aukin „samræðustjórnmál“ og aukin tilhneiging stjórnmálamanna til að „vinna þvert á flokka“ til þess að forðast að nokkur flokkur gæti hagsmuna íbúanna gegn borgaryfirvöldum og þar með hafa íbúarnir minni ástæðu til að mæta á kjörstað til að velja einhvern flokk til að gæta hagsmuna sinna.
Ein ástæða minnkandi kjörsóknar er svo vafalaust stórminnkað kosningastarf flokkanna á kjördag. Eftir að vinstriflokkarnir höfðu ekki lengur nægilegan fjölda sjálfboðaliða til að vinna hefðbundna kjördagsvinnu hófu þeir mikinn áróður fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn yrði að hætta henni líka. Létu þeir jafnvel eins og það væri leyndarmál hvers og eins kjósanda hvort hann tæki þátt í opinberum kosningum og að það væru sérstakar persónunjósnir ef framboðin fylgdust með því hverjir kysu. Þó er heimild til slíks eftirlits einn af grundvallarþáttum þess að kosningar séu frjálsar og geti notið almenns trausts. En það að allir íslensku flokkarnir hafa hætt hefðbundinni kjördagsvinnu hefur auðvitað sín áhrif á kjörsókn. Ekki kannski vegna þess að kjördagsvinnan sem slík hafi fengið marga til að kjósa sem annars hefðu ekki gert það. En þegar mörg hundruð manns vinna sjálfboðaliðastarf fyrir flokk á kjördag, þá hefur það sín áhrif og smitar út frá sér. Þetta neitar Sjálfstæðisflokkurinn sér um í hverjum kosningum á fætur öðrum, til þess að vinstrimenn verði ekki reiðir.
Sumir hafa kvartað yfir því hvernig „moskumálin tóku kosningabaráttuna yfir í Reykjavík“. Sú kvörtun segir talsverða sögu um deyfðina í baráttunni. Það var um viku fyrir kosningar sem oddviti framsóknarmanna minntist á úthlutun lóðar undir mosku. Hvað hafði verið rætt áður? Ef sagt er að kosningabaráttan hafi staðið í tvo mánuði, um hvað var þá deilt síðustu sjö vikurnar áður en „moskumálin tóku kosningabaráttuna yfir“? Ekkert. Samfylkingin sýndi myndir af Degi Eggertssyni, Sjálfstæðisflokkurinn vildi að menn kysu dásamlega Reykjavík og Guðni Ágústsson spólaði í startholunum.
Man einhver eftir nokkru sem rætt var þessar vikur og mánuði sem kosningabaráttan stóð, áður en moskulóðin var nefnd? Á hvað skyggði umræðan um lóðina undir moskuna eiginlega?
En þeir sem fyrst og fremst vilja sem mesta kjörsókn, kjörsóknarinnar vegna, ættu þeir ekki að fagna umræðunni um moskuna? Hljóta ekki margir, sem ella hefðu ekki nennt á kjörstað, að hafa mætt til að kjósa annað hvort með eða á móti þeim sem ekki vilja moskur?