Vefþjóðviljinn 164. tbl. 17. árg.
Einhver sagði einhvern tímann að það ætti ekki að vera markmið að fá milljón ferðamenn til Íslands heldur að fá milljón í tekjur af hverjum þeirra.
Þótt auðvitað sé ekki hægt að stýra því svo nákvæmlega hve miklu hver ferðamaður eyðir hér á landi þá er fráleit sú stefna nýrrar ríkisstjórnar að ferðamenn eigi að greiða lægri neysluskatta af helstu útgjöldum sínum hér á landi en gengur og gerist af útgjöldum þeirra sem hér búa.
* Íslendingurinn greiðir 25,5% virðisaukaskatt af rúminu sínu og sænginni en ferðamaðurinn 7% af hótelgistingu.
* Landinn greiðir 20% vörugjöld af smábíl til ríkisins en ferðamaðurinn leigir sama bíl án vörugjalda.
* Landsmenn greiða 25,5% virðisaukaskatt af kaupum á flíspeysu en ferðamenn geta keypt hana „tax free“ og fengið skattinn endurgreiddan að verulegu leyti.
* Hingað til hafa ferðamenn svo getað valsað um helstu náttúruperlur landsins og sent skattgreiðendum árlega mörg hundruð milljóna króna reikning fyrir rekstri og viðhaldi sem af rápinu hlýst.
En þetta snýst ekki aðeins um skattalegt jafnræði milli ferðamanna og innfæddra. Aðrar atvinnugreinar keppa til að mynda um starfsfólk við ferðaþjónustuna. Er það stefnan að fjölga herbergisþernum fremur en forriturum og hárskerum?
Og svo lofaði ríkisstjórnin fyrir nokkrum dögum að „einfalda skattkerfið.“