Margar aðsendar greinar dagblaðanna eru þannig að ætla mætti að fólk hefði ekki mikils misst ef þær hefðu aldrei verið skrifaðar, hvað þá birtar. En auðvitað sitja þau blöð, sem bjóðast til birta aðsendar greinar, uppi með það sem lesendum þóknast að láta frá sér og kannski lítil sanngirni í því að skamma slík blöð fyrir þær greinar. Meiri kröfur má hins vegar gera þegar blað býður upp á sérstaka pistlahöfunda sem það hefur sjálft valið. Þá er fremur hægt að fara fram fjölbreyttar greinar, en ekki sama fyrirsjáanlega staglið viku eftir viku. En jafnvel þarna grípa lesendur yfirleitt í tómt. Fastir pistlahöfundar dagblaðanna eru sjaldnast vitund betri en hinir og sumir virðast einlægt vera að skrifa sömu greinina. Og ekki batnar hún við endurtekninguna.
En auðvitað birtast áhugaverðar greinar milli allra hinna. Höfundur, sem þá auðvitað skrifar allt of sjaldan, sem Vefþjóðviljinn hefur raunar áður bent á er Ragnhildur Kolka, meinatæknir. Hún hefur af og til skrifað í Morgunblaðið og jafnan þannig að ber af flestu því sem þar birtist, ef dæmt er af efnistökum, skynsemi og þörf. Kolka gefur lítið fyrir rétttrúnað dagsins og talar enga tæpitungu. Í síðustu viku fjallaði hún um nýlegan leiðara Morgunblaðsins um Bandaríkjastjórn, Sameinuðu þjóðirnar og spillingu innan samtakanna. Óhætt er að segja að í grein hennar sé fjallað af talsvert meira viti um þessi mál en í Morgunblaðs-leiðaranum, enda kannski ekki við öðru að búast, slík líflaus rétttrúnaðartúndra sem forystugreinar Morgunblaðsins hafa iðulega verið undanfarin misseri. Morgunblaðið hefur á síðustu árum breyst í slíkan rétttrúnaðarpappír í flestum málum, að það er ógnvænlegt. Þó blaðið sé auðvitað enn á margan hátt vandað og traust, og standi framar að því leyti en önnur íslensk dagblöð, þá eru þjóðmálaskrif blaðsins oft æði illa heppnuð, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Ef blaðið nyti ekki enn orðspors liðinna áratuga þá má telja víst að fjölmargir lesendur þess hefðu snúið við því baki vegna þessa. Raunar má gera því skóna að vegna þessa orðspors hafi enn ekki allir lesendur áttað sig á þeirri rétttrúnaðarslagsíðu sem verið hefur á blaðinu og vaxið mjög á síðustu árum. En fleiri og fleiri átta sig betur og betur.
„Í innlendum málum er Morgunblaðið iðulega talsmaður hins hefðbundna rétttrúnaðar. Sérstaklega er blaðið þreytandi í jafnréttismálum og er raunar svo að ákafinn við að sýna jafnréttisáhugann getur gengið í þær öfgar að einlægnin að baki fer að verða umhugsunarefni.“ |
Það þarf engum að koma á óvart þó Morgunblaðið standi með skrifræðismönnum Sameinuðu þjóðanna gegn þeim sem vilja bæta samtökin utan frá, sérstaklega ekki ef þessir fyrir utan eru núverandi stjórnvöld Bandaríkjanna. Morgunblaðið er til dæmis sennilega eini sæmilegi fjölmiðill Vesturlanda sem enn hefur ekki áttað sig á því að George Bush var rétt kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 2000. Að minnsta kosti barðist Morgunblaðið lengur en Gore gegn kjöri Bush og hefur löngum verið duglegt að flytja íslenskum lesendum hæpnar myndir af forsetanum. Sennilega stafar þessi árátta blaðsins ekki síst af þeirri lotningu sem blaðið hefur á síðustu árum tekið fyrir hinu umdeilda vinstrablaði, The New York Times, sem hefur undanfarna hálfu öld beitt sér af krafti gegn repúblikönum og því sem þeir hafast að. Þeir sem hafa vit sitt á bandarískum málefnum úr The New York Times eru kannski ekki þeir sem gagnlegast er að ræða við um bandarísk málefni.
Í innlendum málum er Morgunblaðið iðulega talsmaður hins hefðbundna rétttrúnaðar. Sérstaklega er blaðið þreytandi í jafnréttismálum og er raunar svo að ákafinn við að sýna jafnréttisáhugann getur gengið í þær öfgar að einlægnin að baki fer að verða umhugsunarefni. Morgunblaðið talar stundum almennum orðum um aðhald í ríkisfjármálum og ábyrga peningastjórn hins opinbera, og fátt nema gott um það að segja. En í nær hvert sinn sem talið berst að einstökum útgjaldahugmyndum þá stendur blaðið með þeim sem gera kröfur til hins opinbera. Frá því er næstum ekki önnur undantekning en styrkir til landbúnaðar, en einhverra hluta vegna virðist blaðið stundum standa þar með skattgreiðendum og má telja víst að blaðið áttar sig ekki á því hversu vel rök þess þar gætu nýst gegn ótal hugðarefnum þess á öðrum sviðum. Þeir sem vilja að hið opinbera nýti gjöld af öllum til þess að greiða fyrir sérstök áhugamál fárra, af hverju eru þeir á móti styrkjum til landbúnaðar? Ef það má nota opinbert fé til þess að niðurgreiða skemmtanir og afþreyingu sjálfskipaðrar elítu í Reykjavík, þá er ekkert að því að styrkja þá sem framleiða matvæli í sveitum landsins. En jafnvel þegar til einstakra mála kemur varðandi landbúnaðinn bregst Morgunblaðið vonum manna um að það styðji aukið frjálsræði. Svona má áfram telja. Lesbókin er póstmódernískur múrsteinn. Menningarumfjöllunin er eins og hún er. Viðhorfahöfundar feta sömu tilbreytingarlausu slóðina. Man einhver eftir viðhorfahöfundi sem gefur hefðbundnum rétttrúnaði langt nef? Af hverju fer ekki einhver og les viku af Morgunblaðinu og svo sömu viku af til dæmis The Daily Telegraph, því vandaða blaði sem best selst á Bretlandseyjum. Það væri ekki eins og þessi blöð væru skrifuð í sömu veröld.
En eitt af því sem helst er þreytandi við Morgunblaðið er friðþægingarþörf þess við vinstrimenn. Morgunblaðið virðist sífellt óttast að vera álitið styðja almenn frjálslynd hægriviðhorf. Og ef, eftir langt hlé, birtist ritstjórnarefni sem kynnir hefðbundin borgaraleg hægrisjónarmið, þá þarf yfirleitt ekki nema tvær eða þrjár greinar eftir vinstrimenn, þar sem blaðið er gagnrýnt í slegnum umvöndunartóni, til þess að ritstjórninni falli allur ketill í eld, og þó hún svari fyrir sig með einum mannalegum staksteinum þá þagnar blaðið að því búnu og vinstrimennirnir fá sitt fram.
En allir verða að eiga það sem þeir eiga. Fréttir Morgunblaðsins þess eru áreiðanlegri en annarra, þær eru vafalaust sjaldan sagðar gegn betri vitund, það er almennt reynt að láta ritstjórnarskoðanir ekki hafa áhrif á framsetningu frétta og svo framvegis. Fjölmargt er afar vel gert á Morgunblaðinu. Það er kannski þess vegna, og vegna sögu þess, sem rétttrúnaðurinn og vinstrimannaóttinn, verður svo afskaplega þreytandi.