Vefþjóðviljinn 300. tbl. 16. árg.
Jóhanna Sigurðardóttir lýsti því á dögunum sem miklum ólíkindum að ekki hefðist náðst á minnka launamun kynjanna á undanförnum árum. Jafnvel meðal starfsmanna ríkis og sveitarfélaga telja menn sig geta mælt þennan mun á launum kynjanna. Jafnt nú sem fyrr.
Látum það liggja á milli hluta að þessu sinni hvort munurinn sé nægjanlegur til að vera marktækur.
Meðal helstu glamuryrða síðustu ára er „að axla ábyrgð.“ Er þá enginn þarna úti sem þarf að axla ábyrgð vegna þess að mistekist hefur að útrýma hinum meinta launamun?
Hvað með Jafnréttisstofu? Skattgreiðendur leggja henni til 65 milljónir króna á ári. Í lögum um jafna stöðu kvenna og karla segir að meðal verkefna Jafnréttisstofu sé að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og „vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði.“
Hefur Jafnréttisstofan ekki brugðist og nauðsynlegt að einhver axli ábyrgð?
Og hvað með allar jafnréttisnefndir sveitarfélaganna sem mistekist hefur að útrýma launamun kynjanna á bæjarskrifstofum?
Vinsamlega athuga samt eitt: Ekki láta jafnréttisstofu axla ábyrgð á sama hátt og fjármálaeftirlitið, með fleiri starfsmönnum, stærra og flottara húsnæði og enn hærri fjárveitingum.