Vefþjóðviljinn 265. tbl. 16. árg.
Frá því var sagt í fréttum í vikunni að George Provopoulos seðlabankastjóri Grikkja hefði óskað eftir 30% launalækkun til viðbótar við þá 20% lækkun sem varð á launum hans árið 2009. Þetta myndu ýmsir telja að væru ekki fráleit viðbrögð embættismanns í landi þar sem hæglega mætti hafa yfir setningu á borð við „hér varð auðvitað hrun.“
En í öðru landi þar sem menn segja tíðum „hér varð auðvitað hrun“ er Már Guðmundsson seðlabankastjóri í málaferlum við seðlabankann til að fá laun sín hækkuð um 25%.
Þá þarf að vísu að hafa í huga að aðalhagfræðingur seðlabankans undraðist mjög þegar samið var um 3,5% launahækkanir á almennum markaði. Hvernig datt ykkur þetta í hug, á hann að hafa spurt. Á sama tímabili hækkuðu þó laun í seðlabankanum sjálfum um tæp 9%.
Allt ber þetta svo að skoða í því ljósi að samkvæmt tilskipun Jóhönnu Sigurðardóttur má enginn ríkisstarfsmaður hafa hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, en Má réð hún þó í seðlabankann á hærri launum og hann gerir sem fyrr segir kröfu um enn hærri laun.