Forsætisráðherra boðaði fyrir nokkrum dögum að skattar skyldu verða lækkaðir á næsta kjörtímabili, enda væri ekki ástæða til að láta ríkissjóð fitna um of. Í þessu sambandi nefndi hann meðal annars beina skatta á einstaklinga og eignarskatta. Í gær setti formaður Framsóknarflokksins þing flokksins og lýsti einnig þeirri skoðun sinni að lækka bæri skatta. Hann vill fara með beina skatta á einstaklinga úr 38,55% í 35,20%, líkt og þeir voru þegar núverandi skattkerfi einstaklinga var tekið upp fyrir hálfum öðrum áratug.
Hugmyndir formanns Framsóknarflokksins gera einnig ráð fyrir að auka ótekjutengdar barnabætur. Þessi hugmynd formannsins er öllu lakari en hugmyndin um lægri skatta, enda kalla slíkar bótagreiðslur á aukna skattbyrði annarra. Eins og fram kom í ræðu formannsins felur hugmynd hans í sér að það verði ekki einungis foreldrar yngstu barnanna sem fái ótekjutengdar bætur frá ríkinu fyrir að eiga börn, heldur muni foreldrar allra barna fá slíkar bætur. Nú fá foreldrar sjö ára barna eða yngri greiddar ótekjutengdar barnabætur úr ríkissjóði, en samkvæmt þessum hugmyndum ættu foreldrar sautján ára „barns“ að fá styrk frá ríkinu og það jafnvel þótt foreldrarnir væru með tekjur og ættu eignir á borð við William H. Gates III og „barnið“ ynni fyrir sér sjálft og væri jafnvel flutt að heiman.
Aukin umsvif bótakerfisins eru ekki það sem þarf hér á landi. Það er alls engin ástæða til að auka bætur til fullfrísks fólks á besta aldri, miklu nær væri að losa það fólk alfarið út úr bótakerfinu og láta nægja að bótakerfið sjái þeim farborða sem ekki geta gert það hjálparlaust. Með fækkun og lækkun bóta mætti lækka skatthlutfallið enn meira en formaður Framsóknarflokksins leggur til. Skattalækkunartillaga formannsins er engu að síður skref í rétta átt og gefur vonir um að skattar verði lækkaðir verulega á næsta kjörtímabili – það er að segja ef skattadrottningu R-listans verður haldið utan við stjórnarráðið.