Laugardagur 21. ágúst 2010

233. tbl. 14. árg.

U ndanfarin tvö ár hefur því sífellt verið haldið fram að vinstri grænir hafi ekki átt neinn þátt í hruninu svonefnda. Þetta álit kann þó að breytast þegar menn fá betra ráðrúm til að átta sig á helstu dragbítum á bættan hag Íslendinga á næstu árum.

Þar mun bera hæst gríðarlegar skuldir ríkis og sveitarfélaga. Þær hrannast upp um þessar mundir og hafa gert hvern einasta dag undanfarin tvö ár ef frá er talinn 6. mars síðastliðinn. Ríkissjóður er rekinn með ofboðslegum halla. Ástæðan fyrir þessum hallarekstri er að efnt var til ríkisútgjalda sem tóku mið af tekjum ríkissjóðs í fjármálabólunni. Þegar bólan sprakk og menn hættu að kaupa græjur með 30 – 45% vörugjöldum, tollum  og virðisaukaskatti ofan á það lækkuðu tekjur ríkisins. Vinstri grænir ýttu alla tíð undir þessa útgjaldagleði ríkisins og ömuðust við hverri sparnaðartillögu. Þeir hömuðust einnig gegn öllum skattalækkunum og vildu ætíð hækka skatta, sem hefði aukið ráðstöfunarfé hinna útgjaldaglöðu stjórnmálamanna enn frekar og gert vandann nú stærri en ella.

Vinstri grænir áttu einnig sinn þátt í þeirri stemmningu að menn gætu lifað í vellystingum á loftinu einu saman. Þeir töluðu með lítilsvirðingu um hefðbundna framleiðsluatvinnuvegi og verksmiðjuvinnu en af lotningu um „eitthvað annað“. Helst eitthvað vistvænt föndur, jafnréttisdútl eða álíka skýjaborgir styrktar af hinu opinbera eða þá bönkunum ef svo ólíklega vildi til að einhver stjórnmálamaðurinn væri ekki til í að „taka forystu“, um að eyða annarra manna peningum í málið. Í raun var svipuð stemmning hjá vinstri grænum og bönkunum. Allt var í raun ókeypis og bara einhvern veginn.

Stjórnarandstaða á að veita aðhald. Vinstri grænir brugðust því hlutverki sínu árin fyrir hrunið. Þeir kynntu undir eyðsluseminni og ábyrgðarleysinu. Þeir blésu eins og aðrir flokkar í loftbóluhagkerfið.

Það sem skorti svo sárlega árin fyrir hrunið var aðhald frá hægri. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið skarpa vinstri beygju undir forystu Geirs H. Haarde og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og allt var látið eftir Samfylkingunni þegar hún var fengin til samstarfs vorið 2007. Fjárlögin þá um haustið báru það með sér.